„Mikill kraftur og hugrekki í fyrirtækjunum á svæðinu“
Sverre Andreas Jakobsson, fyrrum landsliðsmaður í handknattleik, er forstöðumaður fyrirtækjaviðskipta hjá Arion á Norður- og Austurlandi. Arion bætir í þjónustu sína í fjórðungnum í lok mánaðarins þegar tryggingafélagið bætist við í útibúi bankans á Egilsstöðum.„Ég er uppalinn á Akureyri en ættirnar liggja reyndar út um hvippinn og hvappinn. Þú gætir örugglega aldrei giskað á genasamsetninguna!“ segir Sverre um uppruna sinn.
Sverre Andreas Jakobsson, forstöðumaður fyrirtækjaviðskipta hjá Arion á Norður- og Austurlandi, kemst á flug þegar hann er inntur eftir tengingu sinni við landshlutann þar sem hann býr og starfar.
„Ég er fæddur í Noregi – Osló – en elst svo upp frá fimm ára aldri hér á Akureyri. Pabbi er að austan, frá Vopnafirði, en ég á sömuleiðis ættir að rekja til Indlands. Ég er sem sagt 12,5% indverskur, 12,5% enskur, 25% norskur og restin er íslensk,“ segir hann og brosir. „Ég grínast svolítið í krökkunum með að þau séu enskir Norðmenn frá Indlandi.“
Sverre hefur starfað hjá Arion frá 2018. „Já, tíminn flýgur. Ég sneri aftur hingað heim eftir tæp átta ár í Þýskalandi.“ Þar gerði Sverre garðinn frægan í handboltanum, auk þess sem hann var í íslenska landsliðshópnum sem hlaut silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsverðlaun á EM 2010 í Austurríki.
Að loknum farsælum handboltaferli vatt hann svo kvæði sínu í kross og starfaði um skeið fyrir endurskoðunarskrifstofu. „Það var reyndar ekki alveg minn tebolli,“ segir hann og hlær. Við heimkomuna til Íslands fann hann sína hillu hjá Arion banka og er nú, sem fyrr segir, forstöðumaður fyrirtækjaviðskipta í sínum landshluta.
Mikilvægt að kynnast viðskiptavinum persónulega
Sverre hefur gaman af því að starfa fyrir hönd Arion með kröftugum norðlenskum og austfirskum fyrirtækjum. „Já, hér er mikill kraftur og hugrekki í fólki sem tekst á við alls konar áskoranir. Oft er búið að fórna miklu til að ná markmiðum félaganna – að baki liggur jafnvel margra ára eyðimerkurganga áður en fólk tekur að uppskera – og þá er svo gaman að sjá hlutina byrja að blómstra og ná ákveðinni festu. Hér er mikil gróska og fjölbreytileiki í ótal atvinnugreinum. Við í Arion erum í mikilli nálægð við ferðaþjónustu, verktaka, fasteignafélög, bændur – allar þessar ólíku atvinnugreinar, sem er svo gefandi og skemmtilegt.“
Ljóst er að mannlegu samskiptin skipta Sverre miklu máli. „Já, við reynum að halda góðri persónulegri tengingu við okkar viðskiptavini. Þú færð ekki tilfinningu fyrir rekstri eða starfsumhverfi viðskiptavina þinna nema með því að hitta þá og eiga við þá spjall um lífið og tilveruna meðfram samtölum um bankamál og atvinnurekstur. Það er til dæmis ekki það sama að heimsækja hótel í Eyjafirði og svo annað hótel á Egilsstöðum – áskoranirnar eru gjörólíkar. Þessi nálægð er því mjög mikilvæg. Við reynum að kynnast fólkinu og starfseminni og í rauninni bara DNA-inu í hverju félagi fyrir sig.“
Fjölbreytt þjónustuframboð
Tryggingafélagið Vörður opnaði á dögunum nýja þjónustuskrifstofu í útibúi Arion á Egilsstöðum. Sverre segir þetta til marks um kraftinn og fjölbreytileika þjónustunnar. „Mér finnst frábært hvað samstarfið á milli ólíkra fyrirtækja í samstæðunni er gott. Við getum sett saman heildstæðan þjónustupakka fyrir allar tegundir félaga og fólk þarf því ekki að fara á marga staði. Í raun er nánast ekkert sem við getum ekki aðstoðað þig með þegar kemur að rekstri.“
Sverre segir markmiðið í þjónustunni að einfalda líf viðskiptavina, til dæmis með liðlegu viðmóti og góðri staðbundinni þjónustu og ekki síður með skilvirkum tæknilausnum, s.s. Arion-appinu. „Þá viljum við standa með fólki og sömuleiðis gleðja það með því að hafa frumkvæði ef við sjáum að við getum gert eitthvað að fyrra bragði sem hentar félaginu.“