Mikils vert að LungA-skólinn njóti stuðnings Seyðfirðinga
Mark Rohtmaa-Jackson lauk í vor fyrsta ári sínu sem skólastjóri LungA lýðháskólans á Seyðisfirði, en hann tók við starfinu í október í fyrra. Mark hafði áður verið sýningarstjóri IMT nýlistagallerísins í London frá árinu 2005 og segist kunna vel við sig á Seyðisfirði.„Það var nokkuð tilviljunarkennt hvernig ég endaði hér,“ segir Mark hlæjandi. „Ég heyrði fyrst af skólanum þegar ég hitti Lotte Rose Kjær Skau sem var og er einn listastjórnenda LungA skólans. Hún sagði mér frá hversu einstakur skólinn væri og þar væri listrænt frelsi mun meira en víðast hvar í slíkum skólum. Úr varð að í tengslum við rannsóknarverkefni mitt við háskólann sem ég starfaði við kom ég hingað tvisvar til að kynna mér LungA betur.
Á þeim tíma var mér sagt frá að auglýst yrði fljótlega eftir nýjum skólastjóra og ég sá fyrir mér að forvitnilegt væri að taka viðtal við þann aðila. Svo gerði ég mér fljótlega grein fyrir að þetta væri nú kannski kjörið starf fyrir mig sjálfan.
Ég sótti því um og hér er ég nú og ekki minnsta eftirsjá því starfið er frábært, bærinn dásamlegur og fólkið hér hefur reynst mér og fjölskyldunni afar vel. Mjög gaman líka hvað skólinn og LungA hugmyndin nýtur mikils stuðnings bæjarbúa sem er ekki endilega sjálfgefið.“
Land og list
Það var í fyrsta skipti í vetur sem LungA-skólinn bauð upp á tvær mismunandi námsleiðir. Annars vegar hreinan listaskóla, Art, en hins vegar námsleiðina Land þar sem nemendur sækja innblástur í verk sín sérstaklega í náttúru Seyðisfjarðar á einn eða annan hátt. Óhætt er að fullyrða að þessi nýjung njóti vinsælda því fullt hefur verið í báðar greinar.
„Það hefur sannarlega gengið vel og nemendurnir verið mjög spenntir fyrir öðruvísi nálgun á listina gegnum landið og náttúruna. Líklega er ekki hægt að finna betri stað en Seyðisfjörð þar sem einangrun, birta og afar mögnuð náttúran allt í kring til að fá sérstakan innblástur í listsköpun og þróun.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.