Mikilvægt að vinna með tilfinningar frá unga aldri

„Inntak bókanna er lífsleikni, það að ráða við erfiðar tilfinningar. Við byggjum á hugrænni atferlismeðferð, þ.e.a.s. á undan tilfinningum kemur hugsun sem getur verið meðvituð en kannski einnig oft ómeðvituð," segir Ásta María Hjaltadóttir, annar höfundur tveggja nýrra  bóka sem unnar eru út frá aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar.

 

Þær Ásta María og Þorgerður Ragnarsdóttir eru höfundar bókanna sem Forlagið Bókstafur gefur út. Ásta María Hjaltadóttir er sérkennari og Þorgerður Ragnarsdóttir er hjúkrunarfræðingur.

Önnur bókin heitir Þekkir þú afbrýðisemi? og fjallar um hvernig bera má kennsl á hana og vinna bug á henni. Hin heitir Stundum verðum við reið! og fjallar um reiðina og hvernig hægt er að taka á málum þegar hún nær yfirhöndinni.

Með því að finna hvaða hugsanir vekja upp erfiðar tilfinningar hjá okkur getum við endurmetið þær, breytt viðbrögðum okkar og liðið betur. Við reynum því í bókunum að setja þessa hugmyndafræði í litla sögu sem hentar ungum krökkum. Bækurnar ættu einnig að henta kennurum og foreldrum í að efla orðaforða barna en við notum markvisst orð sem börnum eru ef til vill ókunn í þeim tilgangi að orðaforðinn verði ríkari og málið litríkara,“ segir Ásta María.


Hugmyndin kviknaði á námskeiði

Ásta María segir hugmyndina að bókunum hafa kviknað þegar þær Þorgerður voru saman á námskeiðum í hugrænni atferlismeðferð.

„Við Þorgerður vorum saman á námskeiðum í hugrænni atferlismeðferð og fannst okkur þessi leið frábær til að vinna með börnum, unglingum og fullorðnum. Eftir smá vangaveltur og spjall var niðurstaðan að prófa að gera litlar sögur um það hvernig er hægt að vinna úr tilfinningum sem við getum öll fundið fyrir. Við teljum báðar að mikilvægt sé að vinna strax á unga aldri með tilfinningar þannig að erfiðar tilfinngar nái ekki að malla svo árum skiptir hjá börnum sem leiða til ýmiss konar erfiðleika að kljást við og koma niður á samskiptum og félagsfærni. Þess má einnig geta að Orri Smárason sálfræðingur var mjög hvetjandi í að við létum verða af þessum skrifum,“ segir Ásta María.

 

Hafa áhuga á að gefa út fleiri sambærilegar bækur

Ásta María segist ekki alveg átta sig á þeim viðbrögðum sem bækurnar eru að fá. „Ég hef lítið náð að kynna þessar bækur þar sem ég er á fullu í starfi. Þar sem ég hef sýnt þær hafa þær vakið jákvæð viðbrögð og m.a. sagt að þetta væri efni sem einmitt þyrfti að fá inn í skóla. Þorgerður hefur verið að kynna þær eitthvað fyrir sunnan og Sigurlaug frá Bókstaf var með þær á Bókamessunni í Hörpu. Þær fundu báðar fyrir áhuga á efninu. Við fáum vonandi tækifæri til að kynna þær frekar og vonumst eftir góðum undirtektum og að grunn- og leikskólar muni nýta sér þetta efni í lífsleikni og lestri en okkur langar að halda áfram og vinna með aðrar tilfinningar eins og kvíða, hræðslu og sorg svo dæmi séu tekin.“


Myndskreyta hvor sína bókina

Athygli vekur að Ásta María og Þorgerður myndskreyta bækurnar sjálfar, Ásta María teiknar bókina um reiðina og Þorgerður um afbrýðisemina. „Við höfum báðar teiknað frá því við vorum saman í Kvennó og merkilegt hvað myndirnar okkar eru keimlíkar en við höfum líka þekkst lengi þannig að það er kannski skýringin. Við ákváðum reyndar að það væri líka í lagi að myndirnar í bókunum væru ekki alltaf eins gerðar eða sama form á þeim. Fjölbreytileikinn og ímyndunaraflið sem gildir þar,“ segir Ásta María.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar