Minnst gæludýraeign meðal Austfirðinga

Austfirðingar eru ólíklegri til að halda gæludýr en íbúar annarra landshluta, ef marka má nýja spurningakönnun sem Maskína gerði á gæludýraeign Íslendinga.

Samkvæmt henni eru ekki gæludýr á 64,8% austfirskra heimila. Það er hæsta hlutfall sem mælist á undan Reykjavík þar sem hlutfallið er 61,7% en á Vesturlandi, Reykjanesi, Vesturlandi og Vestfjörðum eru gæludýr á um helmingi heimila. Á landsvísu er hlutfallið 58,5%.

Austfirðingar skera sig þó ekki úr með að hundar eru algengasta gæludýrið. Tæp 22% aðspurðra sögðu hund vera á heimilinu. Það er þó næst lægsta hlutfallið á eftir Reykjavík þar sem 18% sögðust vera með hunda en á Vesturlandi og Vestfjörðum eru hundar á 33% heimila.

Kettir eru á 13,4% austfirskra heimila, sem er þeirra lægsta hlutfall en á Suðurlandi og Reykjanesi eru þeir á um fjórðungi heimila.

Hvorki fuglar né fiskar mælast á Austurlandi í könnuninni og 1,6% segjast vera með nagdýr. Hins vegar eru 5% með annars konar gæludýr sem er hæsta hlutfall þeirra í könnuninni.

Alls svöruðu 967 manns könnuninni, þar af 35 á Austurlandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar