„Mitt nánasta fólk er komið með upp í kok af spilaæðinu í mér“
Spilakvöld þar sem fólk kemur saman og spilar hafa færst í aukanna undanfarið. Þær Karen Ragnardóttir og Petra Lind Sigurðardóttir kennarar við Verkmenntaskóla Austurlands tóku sig til að byrjuðu með spilakvöld í Neskaupstað á síðasta ári. Það hafa verið haldin reglulega síðan.
„Þegar ég bjó í borginni fór ég stundum á spilakvöld hjá Spilavinum en þeir eru með svipuð kvöld einu sinni í mánuði og þar getur fólk komið og lært ný spil eða eins og í mínu tilviki fengið útrás fyrir mikla spilalöngun þar sem mitt nánasta fólk er komið alveg með upp í kok af mér og mínu spilaæði,“ segir Karen.
Þegar Karen flutti austur aftur datt henni í hug að það væri örugglega fólk í sömu stöðu og hún. Sem langaði að spila en gat ekkert endilega náð saman hóp um helgar til að spila. Því langaði líka ef til vill að læra ný spil.
„Ég stofnaði þetta eftir að hafa rætt þessa hugmyndin lengi við Petru og vildi hafa hana með í þessu. Hún var til í þetta svo við kýldum á það.,“ segir Karen.
„Spilakvöldin hér eru alltaf haldin í Hildibrand en þeir voru svo ofboðslega almennilegir að taka við okkur og það er svo skemmtileg stemming hjá þeim. Svo hafa þeir líka stundum verið með tilboð á barnum og þegar við höfum komið hafa þeir alltaf boðið upp á bakkelsi sem hafa verið eftir.
Næsta spilakvöld verður svo á þriðjudaginn eftir viku eða þann 11. febrúar klukkan 20:00, einmitt á Hildibrand, “ segir Karen.
Á kvöldunum hafa allskonar spil verið spiluð. Karen nefni spil eins og Partners, Ticket to Tide, Cards Agains Humanity, Shit Happens, Íslandsspilið, Catan og Dixit. „Svo ef fólk vill koma með spil og sýna er það velkomið. Ég kem bara með öll þau sem ég á og svo hefur Petra Lind Sigurðardóttir, sem hóf þetta með mér komið með nokkur líka.“
Viðbrögðin hafa verið mjög góð og mætingin mismunandi að sögn Karenar. „Fólk mætir ef það getur og mætingin er því auðvitað misjöfn. Fyrsta spilakvöldið mættu um 30 manns. Fæst vorum við þrjú en við skemmtun okkur mjög vel.“
Mikil stemning á einu spilakvöldinu á Hildibrand. Myndin er aðsend.