„Mömmu leist ekkert á karlamenninguna“

Vinnubúðirnar við Reyðarfjörð voru reistar haustið 2004. Unnið er að því selja restina af vinnubúðunum og hreinsa svæðið. Þar bjuggu fyrst og fremst starfsmenn Bechtel, sem störfuðu við byggingu álvers Alcoa. Þær eru því oftast kallaðar Bechtelbúðirnar.

 

Lilja Björnsdóttir fyrrverandi starfsmaður EES bjó í búðunum um tíma. En ESS sá um þrif, þvott heimilismanna og sá þeim fyrir mat á hverjum degi. Lilja vann við að þrífa vinnubúðirnar. Hún segir að það hafi verið mjög fínt að búa þar. Þarna voru skálar og hver þeirra rúmaði um 30 manns. Í hverjum skála voru 4 baðherbergi með sturtum. Í miðrýminu var eldunaraðstaða og borðstofa svo hægt var að borða saman ef vildi,“ útskýrir hún. 

Aðstaðan góð

Herbergin voru öll eins: Rúm, fataskápur, skrifborð, stóll, skrifborð og krúttlegt lítið túbusjónvarp. „Það var alls ekki þröngt um okkur enda höfðum við ágætis pláss í fataskápnum og undir rúminu. Þetta fyrirkomulag gekk vel, eftir því sem ég best veit. Hinsvegar var þröngt fyrir þá sem fengu næturgesti, enda voru rúmin 90x200 á stærð. Þegar hæst lét bjuggu um 2000 manns í alls 690 húseiningum. Rétt við matsalinn var hús þar sem voru  nokkrar nettengdar tölvur sem íbúar gátu nýtt sér, – fyrir tíma snjallsímanna og Wifi,“ segir Lilja. 

Gestagangur bannaður

Mjög strangar reglur voru um aðgengi að svæðinu. Securitas sá um vöktun þess allan sólarhringinn. „Við sem byrjuðum þarna þurftum að sitja námskeið til þess að mega vera inná búðarsvæðinu og fengum aðgangspassa,“ útskýrir Lilja og bætir við að ekki hafi mátt fá gesti. En þrátt fyrir þessar reglur fundu menn sínar leiðir til þess að komast inn. 

Það var til dæmis mjög vinsælt að stelast inn bakdyramegin. Einnig földu menn sig í bílum þegar ekið var inn á svæðið,“ útskýrir Lilja eins og hún sé að segja frá bíómynd.  

Fólk var ekki sektað þótt upp kæmist um heimsóknir en Lilja man eftir að hafa verið mikið skömmuð af Securitas þegar þáverandi sambýlismaður hennar smyglaði sér inn að nóttu til og það sást síðan til hans fara út af svæðinu með henni. 

Langir vinnudagar

Lilja lýsir venjulegum vinnudegi þannig að var mætt um kl. 06.30 í matsalinn til þess að fá sér morgunmat. Svo smurði hún sér nesti fyrir daginn, því ekki var það sjálfsagt að ná að borða í matsalnum vegna langrar vegalengdar á milli. Þau sem unnum í þrifunum höfðu hvert um sig 4 skála til umráða. 

„Yfirleitt náði ég að klára allt um klukkan 17, en ég lauk alltaf vinnudeginum í þvottahúsinu. Þar hjálpaði ég við frágang á þvotti, setja í þvottavél og þurrkara. Klukkan 19.00 fór ég inn í matsal að borða og síðan beint heim í minn skála þar sem ég iðulega fór í sturtu og síðan beint upp í rúm,“ sagði hún.

Sunnudagsdjamm

Á svæðinu var rekinn bar sem var vel sóttur um helgar. En íbúar þurftu að passa sig að láta það ekki bitna á vinnunni daginn eftir. Enda byrjaði vinnan hjá flestum í þrifateyminu klukkan 07.00 á morgnana. 

Mín vinna var þess eðlis að ekki var svigrúm til þess að veita frí í miðri vaktalotu. En þeir sem komu að uppbyggingu álversins unnu 6 daga vikunnar. Frídagurinn var heilagur hjá þeim. Þeir sem voru á dagvöktum tóku út sitt djamm á laugardagskvöldum og þeir sem voru á næturvöktum tóku að út á sunnudögum. Það var nú meira fjörið að vinna þarna á sunnudögum þegar næturvaktin var á djamminu.“

Lilja segir að vinnan á sunnudögum hafi verið öðruvísi en aðra daga.  „Til dæmis þeir sem voru í fríi þá voru lang flestir mjög ölvaðir og hressir í búðunum. Þeir reyndu að bjóða manni í partý þótt þeir sæju mann haldandi á tuskum og ruslapokum. Við reyndum flest okkar að sýna einhvern metnað á sunnudögum, en það var erfitt þegar maður var sífellt áreittur á vinnutíma. Eina sem maður gat gert var að skipta um ruslapoka og fylla á klósettpappír,“ bætir hún við.

Skemmtileg reynsla

„Foreldrar mínir, sem búa á Selfossi, gerðu sér ferð á Reyðarfjörð til þess að hitta mig einu sinni sinni. Þegar mamma kom inn svæðið hringdi hún í mig og vildi fjarlægja mig þaðan í hvelli því henni leist ekkert á karlamenninguna þarna, fannst þetta ekki sæma 19 ára gömlu trippi, sem ég var.“

Lilja segist hafa kynnst fullt af fólki í vinnubúðunum og var opin fyrir að kynna sér menningu hverrar þjóðar á svæðinu. „Ég hélt til dæmis upp á 19 ára afmælið mitt þarna, bauð slatta af fólki í grill og ég heyrði afmælissönginn minn á 6 tungumálum: íslensku, ensku, pólsku, norsku, portúgölsku og Svahílí, sem var mjög skemmtilegt,“ segir Lilja að lokum. 

 

Staðreyndir um vinnubúðirnar

  • Byrjað var að reisa búðirnar haustið 2004. 
  • Þar bjuggu fyrst og fremst starfsmenn Bechtel sem störfuðu við byggingu álvers Alcoa. 
  • Þar bjuggu um 2000 manns þegar mest lét í alls 690 húseiningum. 
  • Þær tæmdust í lok árs 2007 eftir að álverið var tilbúið. 
  • Frá því framkvæmdum lauk og starfsmenn týndust á braut (um 2008) hafa búðirnar staðið auðar. 
  • Alltaf hefur staðið til að þær færu en á ýmsu hefur gengið og Alcoa ítrekað fengið stöðuleyfi þeirra framlengt.
  • Árið 2012 keypti Stracta Construction húsin og ætlaði fjarlægja þau. Hluti þeirra var fluttur í burtu og byggt úr þeim hótel á nokkrum stöðum á landinu. Upp úr því samstarfi slitnaði og kærumál var rekið fyrir héraðsdómi Austurlands. 
  • Það er ekki fyrsta dómsmálið sem er rekið í tengslum við vinnubúðirnar. Í byrjun árs 2013 féll dómur í Hæstarétti í deilu nokkurra fyrirtækja um hvort einu þeirra væri heimilt að taka fimm svefnskála og þrektækjasal.
  • 240 húseiningar voru fluttur norður á Húsavík og nýttar sem vinnubúðir við byggingu kísilvers PCC. 
  • Þá hafa stakar einingar verið teknar af svæðinu og meðal annars verið nýttar til að reisa íbúðarhús á Austurlandi.
  • Árið 2011 voru uppi hugmyndir um að breyta búðunum í fangelsi, þar sem margir biðu afplánunar á árunum eftir hrun. Sú hugmynd var slegin út af borðinu eftir nánari athugun.
  • Hreyfing komst á sölu nokkurra eininga í sumar. Inni fasteignasala á Egilstöðum sér um söluna. Einhverjar einingar hafa verið seldar en hafa ekki verið sóttar. 

 

Svona líta Bechtelbúðirnar svokölluðu út um þessar mundir en myndin var tekin fyrir tveimur vikum. Mynd: GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar