Skip to main content

Mynd af Hengifossi verðlaunuð í alþjóðlegri samkeppni

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. des 2022 09:45Uppfært 07. des 2022 09:57

Svarthvít ljósmynd af Hengifossi í Fljótsdal hlaut nýverið sérstök verðlaun í alþjóðlegri samkeppni landslagsljósmyndara.


Það var Hollendingurinn Daniel Laan sem tók myndina sem var valin besta svarthvíta myndin í samkeppninni. Takan hefur verið tæknilega krefjandi því myndin virðist tekin að nóttu miðað við stjörnur og annað sem sjá má yfir fossinum. Laan getur flokkast í hóp Íslandsvina því hann stendur fyrir reglulegum ljósmyndaferðum hingað til lands þar sem sérstök áhersla er lögð á næturmyndatöku.

Keppnin kallast „The International Landscape Photographer of the Year Awards.“ Eins og nafnið ber með sér senda ljósmyndarar úr öllum heiminum inn landslagsmyndir.

Þetta er í níunda sinn sem samkeppnin er haldin. Að þessu sinni bárust ríflega 3800 myndir í samkeppnina. Af þeim valdi dómnefnd 101 mynd sem koma út á bók. Þar gefur að líta fleiri myndir frá Íslandi, Laan á til að mynda aðra mynd tekna í Reynisfjöru undir norðurljósum en þar má einnig finna myndir úr Skaftafelli, frá Fagradalsfjalli og af hálendinu. Aðrar verðlaunamyndir má sjá á vef keppninnar.