„Sumir að stíga sín fyrstu skref í myndlist“

Á næstu dögum fer fram kvöldnámskeið í myndlist á vegum Menningarstofu Fjarðabyggðar. Hreinn J. Stephensen, myndlistarmaður, er leiðbeinandi námskeiðsins. Námskeiðin verða haldin í Neskaupstað, Eskifirði og Fáskrúðsfirði og fara fram á kvöldin frá 7. – 30. mars og verða fjögur skipti á hverjum stað. 


Námskeiðið veitir góðan grunn þar sem verður farið í gegnum litafræði, formfræði og myndbyggingu. Jóhann Ágúst Jóhannsson, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar, segir mikinn áhuga vera á námskeiðinu. „Það er fólk búið að koma til mín og biðja um myndlistarnámskeið svo það er mikil stemning fyrir því.” Jóhann segir mikilvægt að nýta þá góðu aðstöðu sem Menningarstofa Fjarðabyggðar hefur í Þórsmörk og Valhöll. Jóhann segir námskeiðið gefa fólki kost á skemmtilegri dægradvöl. 

 

Námskeiðið er fyrir alla þá sem hafa áhuga, en miðað við 16 ára og eldri því námskeiðið byrjar hálf níu á kvöldin. Þeir sem eru yngri en 16 ára eru þó velkomnir í fylgd með fullorðnum. „Í framhaldinu verður haldið framhaldsnámskeið ef áhuginn er til staðar", segir Jóhann. 

 

Hreinn J. Stephensen var nýlega ráðinn sem verkefnastjóri hjá Menningarstofu Fjarðabyggðar. Jóhann segir dýrmætt að fá einhvern inn í starf Menningarstofu sem er menntaður listamaður. Hreinn hefur haldið svipað myndlistarnámskeið áður í VA og byggir námskeiðið á þeim grunni. 

 

Hreinn segist sjá fyrir sér að fleiri námskeið verði haldin og jafnvel framhaldsnámskeið af því námskeiði sem er haldið nú. Hreinn segir námskeiðið ætlað þeim sem hafa áhuga og vilja tileinka sér og efla listræna færni og þekkingu í myndlist. „Aldur þátttakenda er á bilinu 16-65 ára,” segir Hreinn. „Sumir eru að stíga sín fyrstu skref í myndlist og aðrir lengra komnir sem vilja bæta við sig kunnáttu fyrir sína sköpun í myndlist í framtíðinni.”

 

Hreinn segir viðtökur námskeiðsins afar góðar. „Eftir fyrstu kennslustundir upplifi ég gleði og mikinn áhuga þátttakenda á því efni sem ég kenni og ferli þess,” segir Hreinn. 


Jóhann segir þátttökuna í námskeiðinu góða en hámarksfjöldi er 10 manns. Námskeiðið í Neskaupstað fylltist fljótt en Jóhann segir enn laus pláss á hinum stöðunum. „Það eru enn laus pláss á Eskifirði og Fáskrúðsfirði en styttist í að það verði líka fullt”. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar