![](/images/stories/news/2016/krakkar_boma.png)
Myndu byggja svakalega stórt elliheimili á Djúpavogi
„Svo erum við líka Cittaslow, en það er merki um að við göngum vel um umhverfið okkar, förum varlega og hugsum vel um allt,“segir Aldís Sigurjónsdóttir, grunnskólanemi, í innslagi um Djúpavog sem sýnt var í Stundinni okkar á RÚV síðastliðin sunnudag.
Sigyn Blöndal er nýr umsjónvarmaður hins rótgróna þáttar Stundarinnar okkar og ætlar hún sér í vetur að heimsækja æsku landsins á þeirra heimaslóðir. Síðastliðinn sunnudag hitti hún þau Óðinn Pálmason, Birgittu Björgu Ólafsdóttur, Aldísi Sigurjónsdóttur og Viktor Inga Sigurðarson.
Farið var vítt og breitt og krakkarnir svöruðu ýmsum spurningum og minntust meðal annars á að Djúpivogur væri Cittaslow, en markmið Cittaslow-hreyfingarinnar að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni.
„Ef við hendum rusli geta fuglarnir borðað það og fiskarnir þá bara deyja þeir ef það festist í kokinu á þeim,“ sagði Birgitta Björg.
Gefa peninga til Afríku
Þeir Óðinn og Viktor Ingi voru alveg með það á kristaltæru hvað þeir myndu gera ef þeir mættu breyta einhverju í bænum eða jafnvel heiminum.
„Já, við myndum byggja svakalega stórt elliheimili svo að enginn myndi flytja frá Djúpavogi, bara áfram eiga heima þar, ekki fara á Egilsstaði eða Reykjavíkur á eitthvað elliheimili þar. Auðvitað myndum við gera það. Já og líka kaupa skemmtilferðaskip handa öllum krökkunum í skólanum, það væri ógeðslega gaman,“ sagði Óðinn og Viktor Ingi tók undir það.
„Og gefa bara pening þar sem vantar til að byggja, eins og í skólanum okkar, það er verið að fara að stækka hann,“ sagði Viktor Ingi.
„Já, við tökum svona helminginn í það og hendum svo hinum helmingnum til fátæka fólksins í Afríku,“ sagði Óðinn.
Að hugmyndafræðin nái í andardráttinn
„Það var mikill spenningur þannig að við bara drógum um hvaða fjórir nemendur færu í þetta verkefni,“ sagði Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, skólastjóri í Djúpavogsskóla í samtali við Austurfrétt.
Athygli vekur að Aldís minntist á Cittaslow og er Halldóra ánægð með það. „Við erum að taka fyrstu skrefin í að innleiða það í skólann og leikskólann. Þetta tekur tíma en nemendurnir eru aðeins farin að kveikja og átta sig út á hvað þetta gengur. Hugmyndin er að innleiða þetta í skólana þannig að hugmyndafræðin verði komin í andardráttinn hjá þessari kynslóð,“ segir Halldóra Dröfn.
Kynningu á Cittaslow-hugmyndafræðinni og verkefni Djúpavogshrepps má sjá hér.
Innslagið með sjónvarpsstjörnunum ungu má sjá hér á mínútu 1:10.
Ljósmyndir: Frá Stundinni okkar.