Nammirigningin er hápunkturinn

Hefð er orðin fyrir því að slíta Tónlistarskóla Eskifjarðar- og Reyðafjarðar utandyra, en skólaslitin fóru fram á Mjóeyri í síðustu viku. 

 

„Skólaslitin eru alltaf nokkrum dögum eftir vortónleika skólans þar sem allir sitja og hlusta auk þess sem nemendur hafa setið og hlustað heilan vetur og eru komnir með nóg af því. Einnig er þetta í síðasta skipti á vetrinum sem við kennararnir hittum nemendurna, sem sumir hverjir eru að útskrifast, flytja, hætta eða skipta um kennara og miklu skemmtilegra er að kveðja þá á annan hátt en í „kennara-nemenda samskiptum“,“ segir Gillian, eða Dillý eins og hún er alltaf kölluð.


Á skólaslitunum er nemendum afhentur vitnisburður vetrarins, farið í allskonar leiki og pylsur grillaðar.

„Áður vorum við alltaf inn við andapollinn hér á Reyðarfirði en síðustu þrjú ár höfum við verið á Mjóeyrinni. Ferðamannastraumurinn er alltaf að færast framar og skólaslitin aftar og því ekki lengur hægt að vera við andapollinn, þar sem er einnig tjaldstæði. Það er ekki nokkur leið að halda pyslupartý, fara í fótboltakeppni milli Reyðfirðinga og Eskfirðinga eða reipitog milli blokkflautuspilara og rokkara og taka tillit til sofandi ferðamanna í leiðinni,“ segir Dillý og hlær.


Íslenska veðrið hefur sett strik í reikninginn

Dillý segir að íslenska veðrið hafi sjaldansett strik í reikninginn, en man þó eftir að eitt árið þurfti að fresta slitunum.

„Eitt árið var rigning og rok en ég ákvað að það væri bara þannig heima hjá mér en ekki inni á andapolli þar sem oft er allt annað veður, jafnvel bongóblíða meðan það er leiðindaveður annarsstaðar í bænum. Við settum grillið í skottið og brunuðum af stað. Það var þó alveg sama sagan þegar þangað var komið, varla stætt og grillið nánast fokið. Við hættum því við í stað þess að þurfa að plokka börnin upp úr pollinum.“

Dillý segir að reynt sé að hafa eitthvað skemmtilegt að gera fyrir allan aldur. „Hápunkturinn er alltaf nammirigningin, en ég fer vopnuð stórum dalli af karamellum, sem líka er gott stjórnunartæki – hvernig annars á maður að ná saman stórum hópi barna sem dreifð eru um stórt svæði? Þau koma öll um leið, alveg eins og fuglar, og taka svo við skírteinunum sínum,“ segir Dillý.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar