Nemandi í ME hannar merki Þjóðleiks
Í gær var á Egilsstöðum veitt viðurkenning fyrir nýtt merki Þjóðleiks, leiklistarverkefnis á Austurlandi sem unnið er í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Nemendur þrettán skóla í fjórðungnum æfa nú frumsamin verk sem sýnd verða á leiklistarhátíð næsta vor á Fljótsdalshéraði. Sú sem hannaði verðlaunamerkið heitir Kristín Inga Vigfúsdóttir og hlýtur hún að launum hundrað þúsund krónur. Einkenni merkisins eru leikgrímurnar tvær, hlátur og grátur og koma útlínur Austurlandsfjórðungs við sögu í hláturgrímunni.
Kristín er nítján ára gömul, frá Egilsstöðum og útskrifast úr Menntaskólanum á Egilsstöðum innan skamms. Hún segist hafa áhuga á því sem snertir hönnun og gerði nokkrar atrennur að merkinu áður en það fullskapaðist. Hún hefur áður unnið til viðurkenningar fyrir verk sín og fékk verðlaun í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna þegar hún var á ellefta árinu. Þá hannaði hún sérstakan öryggisspegil ætlaðan fyrir barnavagna og kerrur.
Karen Erla Erlingsdóttir forstöðumaður menningar- og tómstundamála á Fljótsdalshéraði segir að ákveðið hafi verið að efna til samkeppni um merki Þjóðleiks og nota slíkt merki til að kynna verkefnið. Samkeppnin var miðuð við þátttakendur á aldrinum þrettán til tuttugu og fimm ára.
Stjórn Þjóðleiks skipa auk Karenar Erlu, fulltrúar frá Þjóðleikhúsinu, Fjarðabyggð, Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði, Vopnafirði og Höfn. Kristín Scheving, forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, heldur utan um faglega hlið verkefnisins og Þjóðleikhúsið er ráðgefandi.
Kristín segir hafa verið erfitt að velja úr innsendum tillögum. Þrjár hafi skarað fram úr og voru þær senda Goddi, grafískum hönnuði sem starfar hjá Listaháskóla Íslands, til skoðunar. Leitað var til Skaftfells á Seyðisfirði um aðstoð við útfærslu merkisins og miðlaði menningarmiðstöðin því áfram til Godds, sem sýnt hefur í Skaftfelli.