Neskaupstaður var eina bæjarfélagið með nægt leikskólapláss

Gerður G. Óskarsdóttir, fyrrum skólastjóri Gagnfræðaskóla Neskaupstaðar og fyrsti skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands, var í hópi þeirra kvenna sem stofnuðu Rauðsokkahreyfinguna, baráttuhóp fyrir jafnrétti kynjanna, upp úr 1970. Gerður flutti austur fljótlega eftir að hreyfingin var stofnuð og hélt áfram uppteknum hætti þar. Hún var meðal frummælanda á nýafstaðinni ráðstefnu um kvenna- og kynjasögu á Austurlandi þar sem hún rifjaði þessa tíma upp.

„Ég var ein af þeim sem stofnuðu hreyfinguna, gekk í rauðum sokkum á eftir 1. maí göngunni árið 1970 og var virk í ýmsum hópum fyrstu árin. Síðan sótti ég um sem skólastjóri Gagnfræðaskólans og flutti hingað 1974. Ég var þá nýlega fráskilin og með tvö börn en Rauðsokkuandinn var í mér og ég fór að tala við konur hér sem höfðu kynnst hreyfingunni.

Hreyfingin reyndi virkilega að tengjast landsbyggðinni. Konur úr henni fóru um landið til að segja frá markmiðunum og hvað væri verið að gera. Um tíma starfaði landsbyggðarhópur sem tengdist konum hér og þar,“ rifjaði Gerður upp.

Hún segir hugmyndafræðina hafa fallið í góðan jarðveg í Neskaupstað. „Þetta er róttækt bæjarfélag og afskaplega framfarasinnað. Það var til dæmis hið eina í landinu þar sem nóg pláss var fyrir öll börn á leikskóla meðan það var vandamál annars staðar. Þótt ég hafi ekki samanburð við marga staði þá get ég ímyndað mér að jarðvegurinn hafi verið góður. Í Neskaupstað var þéttur hópur að spá þessum málum fyrir sér.

Árið 1975 kom stór hópur úr hreyfingunni til að kynna sig. Þetta var árið eftir snjóflóðin og þá var mikil samstaða í bæjarfélaginu, þær töluðu fyrir fullri Egilsbúð. Þær tóku svo þátt í lítilli ráðstefnu um kjör kvenna til sjávar og sveita sem lítill hópur kvenna í bænum hafði undirbúið. Þar sögðu verkakonur, sem aldrei höfðu opnað munninn, frá reynslu sinni og kjörum. Þetta vakti mikla mikla og athygli og hrifningu.“

Rauðsokkurnar mættu þó mótbyr þar sem annars staðar, enda að tala gegn rótgrónum gildum. „Staðan var alls staðar erfið en hún var ekki verri hér en annars staðar. Ég mætti mótbyr að því leyti að mörgum þótti hræðilegt að fráskilin Rauðsokka væri að koma hingað og þættist geta stýrt Gagnfræðaskólanum. Ég barðist líka alltaf við að vera eina konan í hópnum og enginn heyrði í mér og það var sagt „við allir“ og svo framvegis.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar