Orkumálinn 2024

Nicoline frá Teigarhorni gert hátt undir höfði á nýrri sýningu

Nicoline Weywadt frá Teigarhorni í Berufirði, sem fyrst íslenskra kvenna lærði ljósmyndun, er gert hátt undir höfði á nýrri sýningu um konur í hópi frumkvöðla í norrænni ljósmundun sem opnar á Þjóðminjasafni Íslands á laugardag.

Á sýningunni sem kallast „Í skugganum“ er sögð saga fyrstu kvennanna sem lögðu stund á ljósmyndun í Danmörku, Færeyjum og á Íslandi.

„Sýningin varpar ljósi á þau sterku áhrif sem konur í ljósmyndun höfðu á þróun listgreinarinnar í Danmörku, Færeyjum og á Íslandi. Þar kemur fram með skýrum hætti að konur í ljósmyndun bjuggu við afar mismunandi aðstæður og möguleika, ekki aðeins í þessum þremur löndum heldur einnig í Ameríku og dönsku Vestur-Indíum.

Þær skrásettu atvinnulíf, frístundir og heimilislíf meðal handverksmanna í Randers og fiskimanna frá Norður-Jótlandi, frumbyggja Norður-Ameríku og bænda á Íslandi, en tóku einnig ljósmyndir úti í náttúrunni og í þéttbýliskjörnunum í sínu nánasta umhverfi.

Fram til þessa hefur verið viðtekin skoðun að fyrstu konurnar sem störfuðu við ljósmyndun hafi einkum tekið portrettmyndir í öruggu umhverfi ljósmyndastúdíósins. Sú var þó alls ekki raunin,“ segir í kynningatexta.

Sýningin er gerð af Austur-Jótlandssafninu, sem leitað hefur fanga víða. Hún var fyrst sett upp í Randers á Jótlandi í apríl í fyrra en hefur síðan farið víða um Danmörku og er nú komin til Íslands.

Einstæð heimild um myndun þéttbýlis á Austurlandi

Hérlendis er sérsýning á verkum Nicoleine. Á sýningunni eru nokkrar ljósmyndir hennar auk teikningar af ljósmyndastúdíóinu sem hún lét byggja á Teigarhorni.

„Nicoline myndaði fyrst og fremst fólk en eftir hana eru einnig útimyndir frá Djúpavogi, Eskifirði og Seyðisfirði sem sýna upphaf þéttbýlismyndunar á þessum stöðum. Safn hennar er einstæð heimild um Austfirðinga og Austurland á seinni hluta 19. aldar,“ segir í kynningu.

Nicoline giftist aldrei en tók að sér systurdóttur sína, Hansínu Björnsdóttur, sem síðar tók líka upp ljósmyndaiðju. Safn Nicoline er varðveitt í Ljósmyndasafni Íslands á Þjóðminjasafni auk ljósmyndabúnaðar hennar svo sem myndavélar, hnakkajárns og baktjalds sem allt er til sýnis á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.