![](/images/stories/news/2016/helgistjani.png)
Niðursuðu nostalgía á Borgarfirði um helgina: Áramótin ’86 – ’87 haldin hátíðleg í Fjarðarborg
Áramótin 1986-1987 verða haldin hátíðleg í annað sinn í Fjarðarborg á laugardaginn kemur. Þau voru eðlilega haldin síðast þegar árið 1987 gekk í garð á sínum tíma, fyrir tæpum þremur áratugum, en vertarnir í Fjarðarborg telja tímabært að halda upp á þau að nýju núna um helgina.Austurfrétt settist niður með Kristjáni Geir Þorsteinssyni og Helga Hlyni Ásgrímssyni vertum Já Sæll og ræddi stuttlega við þá um komandi hátíðarhöld.
Félagarnir hafa haldið ýmsa óvenjulega viðburði undanfarin sumur. Í fyrrasumar héldu þeir Þorrablót og þar á undan voru haldin jól en einnig hafa þeir fagnað októberfest og haldið Bollywood hátíð yfir há-sumarið. ,,Það er svo gaman þegar er gaman” segir Kristján aðspurður hvers vegna þeir standi í þessum hátíðarhöldum.
En af hverju akkúrat þessi áramót? Kristján segir þau allavega ekki verri áramót en önnur áramót, jafnvel betri, ,,Skaupið var mjög gott” segir hann. Kristján var að vísu ekki fæddur síðast þegar haldið var upp á áramótin ’86-‘87 en Helgi fullyrðir að þessi áramót hafi verið mjög góð, “það voru líka allir svo töff á þessum tíma” bætir hann við.
“Það er auðvitað mikið atriði að vera í tískunni, eða ég meina það kannski ekki skylda að klæða sig rétt, en þetta eru áramótin ’86 og það væri skrítið að mæta klæddur eins og fólk klæðir sig árið 2016,” segir Helgi.
Boðið verður uppá hamborgarhrygg með öllu tilheyrandi, ís og niðursoðna ávexti í eftirrétt og bjórlíki að drekka. “Menn voru mikið í niðursoðnu á þessum árum, þetta verður niðursuðu nostalgía” segir Helgi og bætir við að það muni koma í ljós um helgina hvort einhver sakni bjórlíkisins. ,,Ég er allavega mjög spenntur að smakka það,” segir Kristján.
Sjónvarpsdagskráin á líka sinn sess um kvöldið eins og almennt um áramót, svipmyndir af innlendum og erlendum vettvangi og hið goðsagnakennda áramótaskaup ‘86 verða sýnd á breiðtjaldi. Það verður flugeldssýning og að lokum verður slegið upp alvöru áramótaballi með Magna and the Hafthors og dansað fram eftir nóttu. “Það hefur örugglega ekki verið haldið áramótaball í Fjarðarborg síðan á síðustu öld” segir Helgi og bætir við “Ég held að Hið borgfirska heimabrugg hafi spilað á áramótaballinu þarna ‘87”
Verð fyrir áramótin í heild sinni, mat og ball er 4800 krónur en skráning fer fram í síma 4729920. Þeir félagarnir taka líka við nýarskveðjum í sama númeri eða á facebook.