Nýr útlendingur til Hattar

Bandaríski körfuknattleiksmaðurinn Bayo Arigbon er genginn til liðs við 1. deildar lið Hattar og leikur með liðinu út leiktíðina. Bayo kom til landsins í fyrradag og mætti á sína fyrstu æfingu með liðinu um kvöldið.

 

ImageBayo er kraftframherji, 22ja ára gamall og 196 cm á hæð. Hann spilaði seinast með Al Arabi í Katar og þar áður með San Diego Christian Collage þar sem hann skoraði 20 stig að meðaltali í leik og tók 11 fráköst.
„Okkur vantaði mann undir körfuna til að taka fráköst og skora. Sigurður Hjörleifsson (umboðsmaður) sagði okkur að hann hefði mann sem var Bayo. Hann er ekki hávaxinn miðað við stöðuna sem hann spilar en segist vera eins og Charles Barkley að því leyti að hann hefur mikinn sprengikraft,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Hattar í samtali við Austurgluggann.
Liðið missti erlendu leikmennina tvo, Ben Hill og Jerry Cheeves, miðherja og framherja, fyrir jól. Bayo fyllir væntanlega skarð Cheeves en Hattarmenn binda vonir við að Bosko Boskovic, sem dregið hefur fram skóna á ný, reynist öflugur undir körfunni.
„Hann mætti á æfingu í desember og hefur reynt að koma sér í form. Það er ekki víst að hann verði með í fyrstu leikjunum en hann ætlar sér að vera með í vor,“ sagði Stefán.
Höttur heimsækir Hauka um helgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar