Ný-ung og Snorri verðlaunuð af Hinsegin Austurlandi
Félagsmiðstöðin Ný-ung á Egilsstöðum og Snorri Emilsson, forsprakki gleðigöngunnar á Seyðisfirði, fengu heiðursverðlaun Hinsegin Austurlands sem veitt voru á Regnbogahátíð félagsins um síðustu helgi.Regnbogahátíðin var haldin samhliða Hinsegin dögum um allt land, en einmitt þá fer gleðigangan Hýr Halarófa um Seyðisfjörð. Hún var fyrst haldin árið 2014 þegar Snorri komst ekki í gleðigönguna í Reykjavík heldur fékk nokkra félaga sína í lið með sér sem fóru um götur Seyðisfjarðar. Sú hefð hefur síðan haldist og undið upp á sig.
Í rökstuðningi fyrir valinu segir að halarófan hafi skipt sköpum fyrir hinsegin fólk á Austurlandi. Ný-ung fær viðurkenninguna fyrir framúrskarndi stuðning við hinsegin ungmenni, fræðslu og sýnilega hinsegin málefna.
Allir hinsegin einstaklingar orðið fyrir einhvers konar níðingsskap
Á Regnbogahátíðinni í ár voru skipulagðir viðburðir á Fljótsdalshéraði og á Seyðisfirði. Heiða Ingimarsdóttir, kynnir á hátíðinni á Egilsstöðum, sagði samstöðu samfélagsins skipta hinsegin fólk miklu máli.
„Ég er bæði systir, móðir og vinkona hinsegin einstaklinga. Allir þeir einstaklingar sem ég þekki hafa fengið að finna fyrir áreiti, fordómum og einhvers konar níðingsskap. Sem er auðvitað svo langt frá því að vera í lagi.
Að sama skapi hafa þau fundið styrk, fegurð og samstöðu í gegnum samfélagið, á viðburðum eins og þessum og í hlutum eins og regnbogagötum, gangstéttum og stigum. Fyrir okkur sem ekki erum hinsegin er gott að hafa í huga að á þeim stöðum sem komið regnboginn sést má finna fyrir samþykki og samkennd. Þar eru öll velkomin og þar má fólk vera eins og það er.“
Þar varð að fresta málun nýs regnboga á gangbraut við Fagradalsbraut vegna veðurs. Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, fullvissaði gesti í ávarpi sínu að regnboginn yrði áfram vel sýnilegur.
Samfélagið reyndi að setja soninn í kassa
Aðalheiður Borgþórsdóttir flutti hátíðarræðuna á Seyðisfirði. Hún sagðist tala þar sem móðir og amma hinsegin einstaklinga og rifjaði upp þegar sonur hennar kom út úr skápnum á sínum tíma. Hún sagði það hafa verið hans erfiðustu ár þar sem samfélagið hefði ítrekað reynt að setja hann í kassa sem hann passaði ekki í.
Á síðasta ári sínu í grunnskóla hefði hann reynt að stíga skrefið en hrökklast til baka. Í Menntaskólanum á Egilsstöðum hefði hann lent í alvarlegu einelti þar sem skólafélagar hans hefði reynt að „svæla hann út úr skólanum á niðrandi hátt. Það var mjög erfitt að upplifa það, þar sem honum var ýtt út á ystu nöf og ég óttaðist það versta.“
Aðalheiður sagðist ekki hafa vitað hvað hún gæti gert annað en sýna honum skilyrðislausa ást. Með tíð og tíma hefði hann fundið sína leið og blómstrað í lífinu. Þess vegna væri fagnaðarefni að sjá skólasamfélagið á Seyðisfirði í dag taka vel á móti hinsegin börnum
Úr gleðigöngunni á Seyðisfirði síðasta laugardag. Snorri sem áður í broddi fylkingar Mynd: Jóhann Hjalti Þorsteinsson