Nýir Borgfirðingar fá sængurgjöf

Fyrirtækið Íslenskur dúnn og æðabændurnir Jóhanna Óladóttir og Ólafur Aðalsteinsson hafa tekið höndum saman um að færa væntanlegum foreldrum á Borgarfirði eystra sannkallaða sængurgjöf.

Sængurgjöfin er vitaskuld æðardúnsæng. Jóhanna og Ólafur leggja til dúninn en Íslenskur dúnn sængurverið og vinnuna við að setja sængina saman.

„Ólafur og Jóhanna hafa verið ákveðin í því í nokkur ár að þegar barn myndi fæðast á Borgarfirði fengi það æðardúnsæng. Nú verður þetta hefð að þegar ný börn fæðast fá þau sæng,“ segir Ragna Óskarsdóttir frá Íslenskum dún.

Hún vonast til að gjöfin verði til þess að fjölga börnum á Borgarfirði. Þar eru núna fjögur börn í grunnskóla og eitt á leikskóla, fjögurra ára gamalt. „Að sjálfsögðu er þessi hefð komin til að vera. Því fleiri börn því betra. Þau fá gefins sæng, hér er gjaldfrjáls leikskóli og frír matur í grunnskólanum. Það er hvergi betra að ala upp börn.“

Jóhanna og Ólafur eru með æðavarp í Loðmundarfirði. Þau dvelja þar í um tvo mánuði á hverju vori og héldu þangað um síðustu helgi. Sængin var afhent í síðustu viku áður en þau lögðu af stað.

Íslenskur dúnn stóran hluta þess dúns sem þau framleiða. Í hefðbundna sæng þarf 400-600 grömm en um 200 grömm í barnasængina. „Þetta er hlý sæng af þykkustu gerð,“ útskýrir Ragna.

Foreldrarnir sem fengu dúnsængina heita Lindsay Lee og Árni Magnús Magnusson en þau eiga von á sínu fyrsta barni eftir mánuð. „Við heyrðum af þessu og vorum rétt nógu fljót að flytja lögheimilið,“ segir Árni Magnús. „Grínlaust þá vissum við ekki hversu alvarlega meint þetta væri en það er geggjað að fá svona flotta gjöf úr firðinum.“

Þau segjast ekki hafa áhyggjur af því að miklar væntingar fylgi því úr samfélaginu að eignast fyrsta barnið sem þar fæðist í fjögur ár. „Við erum heppin að eiga fólkið hér að. Það hefur tekið okkur ótrúlega vel. Ég held það sé hvergi betra fyrir barnið að alast upp en hér þar sem heilt samfélag er tilbúið að taka á móti því,“ segir Lindsay.

Jóhanna afhendir Lindsay og Árna Magnúsi sængina.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar