Nýtt hafnarhús á Borgarfirði vekur alþjóðlega athygli

Stærsti arkitektavefur heims segir nýtt þjónustuhús við höfnina á Borgarfirði falla fullkomlega inn í stórbrotið landslag staðarins. Áskorun hafi verið að hanna hús sem bæði gætið þjónað heimamönnum sem starfi við sjómennsku og gestum sem fjölmenni á staðinn til að skoða lunda.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í umfjöllun vefsins Archdaily um þjónustuhúsið. Vefurinn mun vera stærsti arkitektavefur heims með um hálfa milljón gesta daglega.

Í umfjölluninni er því lýst að þrátt fyrir fjarlægð frá höfuðborginni hafi Borgarfjörður ekki farið varhluta af fjölgun ferðamanna á Íslandi þar sem um 40.000 manns sæki hafnarsvæðið árlega, einkum til að skoða lunda.

Í ljósi vaxandi umferðar um svæðið hafi sveitastjórnin efnt til hönnunarsamkeppni um byggingu sem þjónusta ætti bæði heimafólki og gestum. Arkitektastofan Andersen & Sigurdsson fór þar með sigur af hólmi. Stofan er staðsett í Danmörku en Íslendingurinn Þórhallur Sigurðsson er annar stofnenda hennar.

Archdaily segir að við hönnun byggingarinnar hafi þurft að horfa til þess að forða árekstrum milli þessara tveggja hópa. Þetta kalli á að notkun byggingarinnar þurfi að vera sveigjanleg allt árið.

Neðri hæðin er einkum ætluð heimamönnum, á miðhæðinni er reiknað með litlu kaffihúsi en sýningarsal með fræðslu um náttúru Borgarfjarðar á efstu hæðinni. Hægt er að ganga inn í húsið bæði á efstu og neðstu hæðinni. Bent er á að góð skil séu milli ytra og innra rýmis á öllum hæðum.

Arcjdaily lýsir byggingunni sem fullkomnum steinteningi sem vakti höfnina og umhverfi hennar. Hún sé sterkbyggð í samræmi við umhverfið sem hún standi í og fjölbreytta notkun en líka þar sem hún þurfi að geta staðið ómönnuð hluta ársins. Komið er inn á að hvernig litríkum steinum úr náttúru Borgarfjarðar hafi verið hrært saman við steinsteypuna sem gefi henni hrjúfa og fjölbreytta áferð sem breyti um svip yfir daginn og árstíðir. Heildaráferð hennar er sögð undirstrika auðmýkt hússins í stórbrotnu landslagi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar