Öskudagur 2019: Meiri metnaður í búningum en minni í söng – Myndir
Austfirsk börn lögðu í gær leið sína á milli fyrirtækja og stofnana íklædd skrautlegum búningum, sungu fyrir viðstadda og fengu góðgæti að launum.Að sögn öskudagssérfræðinga Austurfréttar virtist sem meira væri lagt í búningana en oft áður og ekki væri þar hægt að greina sérstaka tískubylgju.
Á móti virtist metnaðurinn fyrir söngnum minni en oft áður. Oftast var lagið um krumma sem krunkar úti sungið. Nokkrir hópar sem leið áttu um ritstjórnarskrifstofurnar vildu frekar fá að segja brandara en syngja.
Aðrir sýndu þó mikinn metnað, mættu með hljóðfæri til undirleiks eða hátalara og fóru með leikþætti eða dönsuðu.
Á bæjarskrifstofum Fljótsdalshéraðs er hefð fyrir að starfsmenn klæði sig upp í búninga. Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, var enn í sínum í stíl Eurovision-fara Hatara, þegar hann kynnti ársreikning sveitarfélagsins á bæjarstjórnarfundi síðdegis.