„Ömmur og afar eiga að vera skálkaskjól“

Íris Dóróthea Randversdóttir er höfundur bókarinnar Músasögur sem gefin er út af forlaginu Bókstafur en bókina vann Íris upp úr örsögum sem margar hafa áður birst á Facebook-síðu hennar. Bókin er ríkulega myndskreytt af Unni Sveinsdóttur.



„Ég veit nú ekki hvort ég get skilgreint mig sem rithöfund en ég hef alltaf haft gaman af því að semja texta og mér finnst það eitthvað sem ég á gott með að gera,“ segir Íris sem búsett er á Egilsstöðum. Hún segist hafa lesið mikið sem barn og hafi margoft spænt í sig Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar og búi því að ákveðnu þjóðsagnamáli og hafi almennt mjög góða tilfinningu fyrir íslensku máli.

Íris segist hafa verið á sérstökum stað í lífi sínu þegar hún hóf að skrifa sögurnar en hún þjáðist af þunglyndi á þeim tíma. „Ég fór að skrifa sögur af barnabörnunum mínum sem eru sólargeislarnir í mínu lífi og lýstu upp erfiðan tíma. Þessi bók er þannig ástaróður til barnabarnanna minna, ég á þeim svo óskaplega mikið að þakka.“


Eins ogtilheyra sértrúarsöfnuði

Íris segir sögurnar hafa fæðst eina af annarri og séu þær nú orðnar býsna margar en í þeim er brugðið upp myndum úr lífi músaömmu og músaafa með smámýslum sínum í dagsins önn. Sögurnar hafa notið mikilla vinsælda meðal vina hennar á Facebook sem kvörtuðu ef hún setti þær ekki inn reglulega.

„Ömmur og afar kalla barnabörnin gjarnan mýsnar sínar og bókin fjallar um samskipti mín og þeirra, ásamt músaafa, músamömmu og músapabba. Ég hugsaði þessar litlu sögur aldrei í bók heldur henti þeim inn á netið eins og ömmur og afar gera gjarnan, við erum alltaf að grobba okkur af barnabörnunum okkar. Það að vera amma og afi er eins og að tilheyra sértrúarsöfnuði þar sem allir skilja tungumál hvers annars.

Svo eru það músarholurnar. Ég á heima í einu af fyrstu húsunum sem voru byggð á Egilsstöðum og þar er lítil nafnlaus gata og einhver sagði mér að hún hefði verið kölluð Kjaftamyllustræti hér áður fyrr vegna þess að konurnar hlupu í kaffi á milli húsa. Þar af leiðandi gerast flestar sögurnar í músarholu við Kjaftamyllustræti. Það er svo gaman að börnum meðan þau eru ekki komin á þetta raunveruleikastig eins og við fullorðna fólkið og hafa ennþá eigin sýn á heiminn, lífið og tilveruna.“


Blessun að upplifa barnabörnin sín

Segja má að Músadagar sé sannkallaður ástaróður til barnabarna Írisar Dórótheu. „Ég nota ekki oft svona orð en ég held að ég hafi verið blessuð með því að hafa fengið að verða amma og upplifa barnabörnin mín. Sjálf átti ég alveg óskaplega blíða og góða ömmu og ég held að hluti af því að vera góð amma sé að kenna barnabörnunum hvernig amma á að vera. Ég nenni ekki að ala barnabörnin mín upp, það er ekki mitt hlutverk. Hjá ömmu og afa eiga þau að eiga skálkaskjól en ég flutti oft til ömmu eftir að hafa skellt hurðum hjá mömmu. Það er mitt hlutverk núna að vera vinur, góð, blíð og sú sem knúsar. Það eru bestu og þakklátustu hlutverk í heimi að vera amma og afi.“


Hamingja í hendi

Aðspurð hvernig tilfinning það sé að halda á fyrstu skáldsögunni sinni segir Íris: „Fyrir mig er þetta næstum því feimnismál, ég fékk kökk í hálsinn, tár í augun og var hálf bit þegar ég handlék bókina fyrst en þetta átti ekki að verða neitt og ennþá finnst mér þetta of gott til að vera satt. Þetta er hamingjubók – hamingja í hendi en það er ómetanlegt að halda á orðum sem maður hefur sent frá sér um eitthvað sem stendur manni svo nærri og er svo kært. Mér þykir ofurvænt um bókina og þá tilhugsun að barnabörnin mín eigi hana til framtíðar.“

Músadagar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar