Opið í Skemmunni allt árið

Hópur kvenna hefur um allnokkurt skeið staðið að baki handverksmarkaðinum Skemmunni á Egilsstöðum yfir sumarmánuðina. Þær hafa nú ákveðið að taka skrefið lengra og leigt húsnæði undir markaðinn allt árið.

Það kann að vera nokkur bjartsýni að sögn Sigríðar Lilju Ragnarsdóttir að halda markaðnum opnum allt árið en segir hópinn sem að stendur vera bjartsýnisfólk að eðlisfari.

„Fyrir eru tvær meginástæður. Annars vegar er mikill húsnæðisskortur hér á Egilsstöðum og við gegnum tíðina verið að velkjast nokkuð um með markaðinn. Þessi aðstaða sem við erum með nú hefur boðist okkur síðustu sumrin. Við kunnum vel við okkur þar og þurftum með einhverjum hætti að tryggja okkur lengur en eitt sumar í einu og það höfum við gert.

Hin ástæðan er að hingað koma ferðamenn allan ársins hring þó auðvitað séu þeir færri að vetrarlagi. En það er ferðaþjónustufyrirtækjunum mikilvægt að geta gengið að afþreyingu eða mörkuðum á öllum tímum til að bjóða sínum farþegum og við vonandi sláum því tvær flugur í einu höggi með þessari breytingu. Sjálf er ég viss um að þetta mun ganga hjá okkur þó opnunartíminn verði sennilega ekki sá sami og yfir sumartímann.“

Sigríður Lilja segir að hópurinn sé almennt ánægður með viðtökurnar og sölu síðustu árin. „Það hefur gengið alveg bærilega hjá okkur og það fjölgar smám saman þeim sem til okkar koma ár frá ári. Það er mikið til þetta hefðbundna sem mest selst af eins og lopapeysurnar sem og lopavörur aðrar. En útlendingar eru líka að sýna öðru hér áhuga og við fáum reglulega líka til okkar Íslendinga sem versla við okkur. Við höldum okkar striki á meðan allar stelpurnar eru sammála og geta skipt með sér stundum á vaktinni.“

Sjálf kvartar Sigríður Lilja yfir að engir karlmenn séu í hópnum sem að Skemmunni standi og hafi aldrei verið, en ólíkt því sem margir halda hafi það ekki verið hugmyndin að hafa þetta eingöngu konur í hópnum.

„Það er töluvert af karlmönnum að dunda sér við handverk líka víða en því miður hefur enginn þeirra komið að máli við okkur og viljað taka þátt. Ég lofa samt að við tökum öllum opnum örmum sem vilja leggja þessu öllu lið.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar