Þorrinn til Gunnhildar og Þráins

Þorrinn var veittur í fimmtánda sinn á Egilsstaðaþorrablóti seint í janúar. Að þessu sinni fór hann til hjónanna Gunnhildar Ingvarsdóttur og Þráins Skarphéðinssonar fyrir að viðhalda þjóðdansahefð Íslendinga.

rinn_og_gunnhildur_vefur.jpg

Þorrinn er viðurkenning fyrir vel unnin störf í þágu góðs mannlífs á Héraði og veittur þeim sem skilað hafa mikilsverðu og óeigingjörnu framlagi til samfélagsins á sviði félagsmála, menningar, lista, afþreyingar eða atvinnu. Gunnhildur og Þráinn segja óneitanlega ánægjulegt að einhverjum þyki einhvers um vert það sem þau hafi verið að gera á umliðnum árum.

 

Tíu Fiðrildaferðir á erlenda grund

  

Soffía Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, afhenti Þorrann. Í ávarpi sagði hún meðal annars að Þráinn og Gunnhildur hefðu stofnað Þjóðdansafélagið  Fiðrildin á síðasta fundi Þorrablótsnefndar árið 1975. ,,Í starfi Fiðrildanna hefur verið lögð mikil áhersla á að viðhalda íslenskum þjóðdönsum og þjóðbúningum,“ sagði Soffía. ,,Hefur Þráinn verið aðalkennari  félagsins og formaður nær óslitið frá stofnun þess. Þau hjónin hafa kennt þjóðdansa í flestum skólum á Héraði og kennir Þráinn ennþá í yngri deild Hallormsstaðaskóla, en Fiðrildin eru auk þess með danskennslu í leikskólum á Egilsstöðum.    

Þau hjónin hafa með vinnu sinni í Fiðrildunum átt drjúgan þátt í að halda við þjóðdansahefð okkar Íslendinga með óteljandi sýningum bæði innan og utan Austurlands. Þá hafa þau skipulagt og stjórnað 9 utanlandsferðum þar sem Fiðrildin hafa kynnt þjóðdansa og þjóð. 10. utanlandsferðin er nú í undirbúningi. 

Þráinn og Gunnhildur hafa einnig verið virk og gegnt trúnaðarstörfum í öðru félögum. Má þar nefna að Gunnhildur hefur verið í Kvenfélaginu Blákklukkum frá árinu 1976 og Þráinn hefur frá sama ári verið félagi í Rotary. Og hér á árum áður stjórnuðu þau Héraðsblótum í Valaskjálf sem voru sérsniðin fyrir erlenda ferðahópa með þorramat og þjóðdönsum.

Síðustu 18 ár hafa Fiðrildin gefið út blað þar sem fjallað er um þjóðlega hluti; dans, handverk og listir. Þar eru hæg heimatökin hjá þeim hjónum en þau hafa nú í 37 ár rekið Héraðsprent sem er best búna prentsmiðjan hér á Austurlandi,“ sagði Soffía.

     

Mynd: Gunnhildur Ingvarsdóttir og Þráinn Skarphéðinsson með Þorrann, listaverk eftir Hlyn Halldórsson frá Miðhúsum./SÁ

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar