„Óþarfi að barma sér yfir því að tungumálið breytist“
Þrátt fyrir að hafa fæðst á Hornafirði og alist upp þar og í Flóanum, hefur Vésteinn Ólason, fyrrum forstöðumaður Árnastofnunar og prófessor í bókmenntum við Háskóla Íslands, alltaf haft mikið dálæti á Breiðdal, þaðan sem foreldrar hans voru. Hann hefur komið að uppbyggingu safna- og fræðastarfs í fjórðungnum sem stjórnarmaður í bæði Gunnarsstofnun og Breiðdalssetri.„Breiðdalur er að miklu leyti huglægt fyrirbrigði fyrir mig. Ég hef aldrei átt heima þar og er kannski ekkert afskaplega kunnugur þar. En foreldrar mínir voru bæði fædd þar og uppalin og afi minn og amma voru mikið á heimilinu þegar ég var að alast upp, þannig að það var mikið verið að tala um Breiðdalinn og fólk í Breiðdal. Ég gæti örugglega romsað upp úr mér nöfnum á bændum sem voru þar fyrri hluta síðustu aldar,“ segir Vésteinn um tengsl sín við Breiðdalinn.
Þau rofnuðu aðeins eftir að fjölskyldan flutti frá Hornafirði flutti suður í Flóa og hann fór síðan enn lengra til náms og starfa. Foreldrar hans fluttust þó síðar á Eskifjörð og þannig styrktust tengslin aftur. Þau efldust svo á ný þegar hann fór að taka að sér störf á svæðinu, fyrst í stjórn Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri.
Breiðdalssetur góð viðbót við austfirskt samfélag
Um það leyti sem Vésteinn fór á eftirlaun var verið að stofnsetja Breiðdalssetur. Hann segir Breiðdælinga hafa þekkt tengsl hans og hafi þau því leitað til hans. Starfið hafi verið skemmtilegt, gamla kaupfélagshúsið á Breiðdalsvík var fallega endurbyggt og glætt lífi með gjöfum frá erfingjum fyrrnefnds Stefáns Einarssonar, prófessors í málvísindum, og enska jarðvísindamannsins George Walker.
Setrið hafi síðan meðal annars staðið fyrir málþingum um arfleifð þeirra og tekið á móti háskólanemum. Vésteinn segir að sambúð þessara ólíku fræðigreina hafi ekki valdið erfiðleikum, frá upphafi hafi verið sátt um að gera vel við báðar eftir bestu getu. Rannsóknasetur Háskóla Íslands, með áherslu á jarðvísindi, heldur nú utan um starfsemina í húsinu en þar er líka svæði tileinkað Stefáni. „Vonandi tekst að tryggja og efla þessa starfsemi og ég held að hjá Háskóla Íslands sé vilji til að sinna báðum hlutverkum vel,“ segir Vésteinn um setrið.
Stefán Einarsson var afkastamikill fræðimaður
Stefán var málfræðingur, varð prófessor við Johns Hopkins háskóla í Bandaríkjunum frá því hann lauk doktorsprófi árið 1927 til ársins 1962. „Það voru margir sem sögðu við okkur að þeir hefðu eiginlega verið búnir að gleyma Stefáni eða ekki gert sér grein fyrir því hvað hann var merkur fræðimaður. Hann safnaði sjálfur örnefnum og fékk fólk í Breiðdal til að safna þeim. Hann skrifaði um mállýskur og sérkenni í máli á Austurlandi. Hann var frumkvöðull að útgáfu Breiðdælu, rits um sögu Breiðdals sem kom út 1948.
Þá gaf Stefán út íslenska bókmenntasögu á ensku, sem hann þýddi síðan og gaf út nokkuð aukna á íslensku. Þegar hann dró að sér efni í hana skrifaðist hann á við marga af þeim íslensku rithöfundum sem þá voru lifandi og bað þá um að senda sér upplýsingar. Margir þeirra svöruðu og þau gögn eru til á Landsbókasafninu. Þau eru frumheimildir um íslenska bókmenntasögu á 20. öld. Hann var kunnugur Halldóri Laxness og skrifaði bók um Þórberg Þórðarson, áður en hann öðlaðist almenna viðurkenningu.
Stefán safnaði þjóðfræði með því að taka upp eftir fólki fróðleik og sögur. Þau bönd eru varðveitt hjá Árnastofnun og eru jafnframt heimildir um hvernig fólk talaði. Stefán var málfræðingur en taldi sig ekki hafa tök á að rannsaka samtímamálið því hann bjó út í Bandaríkjunum. Í staðinn fór hann í sumarleyfum til Cornell í New York ríki, þar sem er mikið íslenskt bókasafn. Safnið hefur lengi fengið allar íslenskar bækur sem koma út. Þar gat hann setið og skrifað um íslenskar bókmenntir.
Stefán tók þátt í að kynna íslensk fræði og menningu í Norður Ameríku ásamt Richard Beck frá Reyðarfirði, sem líka var prófessor í Bandaríkjunum. Á þessum tíma voru ekki margir íslenskir fræðimenn jafn framarlega og þeir. Stefán skrifaði líka mikla kennslubók í íslensku, sem ég notaði þegar ég kenndi í Kaupmannahöfn fyrir um fimmtíu árum síðan. Hún er ekki mikið notuð núna en fræðimenn geta enn nýtt sér kafla úr henni. Stefán var því mjög afkastamikill maður þótt það séu alltaf örlög okkar fræðimannanna að það koma ný fræði og þau gömlu hverfa í skuggann,“ segir Vésteinn sem hafði aðeins kynni af Stefáni eftir að sá síðarnefndi flutti aftur til Íslands.
„Þú heldur ekki minningunni á lofti með því einu að líta til baka. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að líta til þess hvað sé hægt að gera í anda Stefáns í Breiðdalssetri, láta verk hans verða innblástur fyrir nýjar rannsóknir, til dæmis ef aðstaða er fyrir fólk í doktorsnámi sem vill rannsaka eitthvað sem tengist Austurlandi, einkum tengt málinu.“
Mikið skrifað á góðri íslensku
Vésteinn kenndi íslenskar bókmenntir í um 40 ár við háskóla hérlendis, í Danmörku, Noregi og í Bandaríkjunum. Hann segir stöðu íslenskunnar vera sterka þótt að henni sé sótt af enskunni á ýmsum sviðum. Mikið sé skrifað á góðri íslensku, bæði fagurbókmenntir og fagtextar. „Hún kemur til með að breytast en ég held hún hrynji ekki í lágensku á þessari öld. Það er óhjákvæmilegt að tungumálið breytist og óþarfi að barma sér yfir því.“
Hann segir ástæðuna fyrir því að íslenskan hafi lengi varðveist lítið breytt, vera þá að þjóðfélagið hafi verið staðnað. Opnun þess um miðja síðustu öld hafi komið ýmsu á hreyfingu.
Þegar við spyrjum hvort verja eigi málið með hreintungustefnu, svo sem berjast gegn því sem eitt sinn var kallað „þágufallssýki“ svarar hann með því að tala um „þágufallshneigð“ sem sé „algjörlega að vinna. Sú barátta var vonlaus frá upphafi. Þetta er eðlileg breyting sem skiptir engu fyrir málkerfið. En þegar ég var yngri þá þótti það lágmenning ef ekki ómenning að vera „sýktur af þágufallssýki“.
Ég held að besta vörnin sé að nota málið mikið og vanda sig. Unga fólkið er stundum skammað en mér finnst það oft tala ágætt mál þótt það noti slettur sín á milli eins og lengi hefur tíðkast. Þetta er samt erfitt því börnin fara svo snemma inn í tölvuheiminn. Við eigum þó sex ára gamalt barnabarnabarn sem ég heyri ekki sletta neinni ensku.“
Íslendingasögurnar uppfullar af leyndardómum
Stofnun Árna Magnússonar, sem Vésteinn veitti forstöðu í um áratug, er sjálfstæð háskólastofnun sem ætlað er að vinna að rannsóknum og miðlun í íslenskum fræðum, einkum á sviði tungu og bókmennta.
Sérfræði Vésteins er á sviði íslenskra fornbókmennta sem varðveittar eru í handritunum sem Árnastofnun geymir. Vésteinn segist vera alinn upp við áhuga og virðingu gagnvart sögunum, þótt hann hafi haft mestan áhuga á nútímabókmenntum þegar hann byrjaði í háskólanáminu, en alþjóðlegur áhugi var þá mestur á fornbókmenntunum og mestur kraftur í rannsóknum á þeim, þannig að samþætting kennslu og rannsókna leiddi mig þangað.
„Í fornum bókmenntum er mikið af snilldarverkum, en líka ráðgátur og leyndardómar. Til dæmis hvernig verða svona bókmenntir til, við vitum ekki nákvæmlega hvernig sagnalistin færist úr því að lifa á vörum manna yfir í að verða ritlist.
Það er líka áhugavert hvernig hugmyndir blandast fyrir og eftir kristni. Menn hættu ekkert að vera heiðnir á einni nóttu. Eða samskipti við útlönd, sérstaklega í gegnum kirkjuna á miðöldum. Þá komu hingað helgisögur og riddarasögur sem yfirstéttin kynnist við norsku hirðina.
Síðan eru þetta frábærar bókmenntir, einnig sögur eins og fornaldarsögur eða riddarasögur, þó þær séu ekki eins frægar og konungasögurnar eða Íslendingasögurnar. Núna eru fornaldarsögurnar að komast á ný til vegs og virðingar, eins og í gegnum sjónvarpsþættina Vikings og Norsemen og fleira slíkt.“
Löngum hefur verið deilt um sannleiksgildi Íslendingasagnanna. „Þetta eru ekki skáldsögur spunnar upp úr engu, en það er mismunandi hvað höfundurinn á mikið í þeim. Sumar eru eins og sögnum hafi verið safnað saman og ritstýrt.
Á tímabili var deilt hart um sannleiksgildið, því almenningur trúði að þetta væru sannar sögur, en svo komu fræðimenn sem héldu öðru fram og þá urðu árekstrar. Fræðin tala núna um að munnleg geymd og ritmenning hafi mæst þannig að til urðu ný verk.“
Hann segir aðalsmerki íslensku sagnanna vera að þar sé meira fjallað um líf almennings heldur en í sögum frá Evrópu frá svipuðum tíma. „Þar var mikið skrifað en það var af klerkastéttinni eða auðugri höfðingjastétt. Hún hafði ekki mikinn áhuga á lífi almennings, sem aftur á móti var til í þjóðsögum.
Hér blandast þetta saman. Til dæmis var skrifað um bændur og ekki gerður mikill greinarmunur á þeim og höfðingjum. Það þarf að fara aftur í forn söguljóð eins og Hómerskviður til að finna hetjumynd sem ekki er aðskilin frá veruleikanum. Síðan er í sögunum hugmyndin um heiðurinn, að hann sé mikilvægari en lífið sjálft.“
Íslendingar fengu mestu gersemarnar
Handritin voru send út til Danmerkur á 17. og 18. öld, en samhliða íslensku sjálfstæðisbaráttunni voru settar fram kröfur um að fá þau til baka. Þau voru afhent í áföngum frá 1971 til 1997, en þó ekki öll. Nokkur handrit eru enn ytra og reglulega er rætt um að gera kröfu um þau. Aðspurður um afstöðu sína til þess vísar Vésteinn til þess að í samningum landanna sé ákvæði um að Íslendingar geti ekki gert kröfu um fleiri handrit. Hann bendir líka á að í dag hafi það minna að segja en áður við rannsóknir að hafa handritin sjálf fyrir framan sig. Reynt sé að komast hjá því að nota þau sjálf heldur fá fræðimenn myndir af síðum til notkunar og alltaf fjölgi þeim handritum sem hægt er að kalla fram á tölvuskjá hvar sem er í heiminum.
„Handritin eru núna fyrst og fremst tákn. Þau eru mjög verðmætir hlutir en frá rannsóknasjónarmiði skiptir ekki öllu máli hvort þau eru hér eða í Kaupmannahöfn. En þau eru okkar menningararfur, okkar þjóðargersemar. Ég held að við getum vel við unað það sem gerðist, við fengum mestu gersemarnar á borð við handrit Íslendingasagnanna og lögbækur. En kannski missa Danir áhugann á þeim þannig að hægt sé að semja um að fá meira af þeim. Í það þarf að fara varlega því samningarnir eru skýrir.
Handritin eru mjög mikils virði og hafa haft mikla þýðingu bæði á Íslandi og í Danmörku. Þar voru rannsóknir á sviðinu efldar. Hér fengum við þetta rannsóknasetur sem Árnastofnun er og þar með meiri pólitískan stuðning við rannsóknasviðið. Það virkar enn að tala um handritin í stjórnmálunum, menn finna að þeir verða að standa sig gagnvart þeim. Þetta nýja og glæsilega hús íslenskra fræða, Edda, hefði ekki risið án þeirra og þeirrar víxlverkunar sem hefur verið á milli fræðastarfs stofnunarinnar og stjórnmálanna.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.