Pálína Waage hafði kjark til að ögra karlaveldinu
Sigríður Matthíasdóttir, sagnfræðingur á Seyðisfirði, er að leggja lokahönd á bók um Pálínu Waage, athafnakonu á Seyðisfirði. Saga Pálínu sem viðskiptakonu er um margt athygliverð á tímum þar sem takmarkaðar heimildir eru þátttöku kvenna í atvinnu-og viðskiptalífi.Sigríður hefur rannsakað ævi Pálínu og þegar birt greinar í sagnfræðitímaritum. Í kringum næstu áramót kemur út bókin „Entepreneurship and Agency as a Lived Experience“ hjá Palgrave-forlaginu. Sigríður stikaði á stóru í sögu Pálínu í opnunarfyrirlestri ráðstefnu um kvenna- og kynjasögu sem haldin var á Seyðisfirði og Egilsstöðum í sumar.
Það sem gerir sögu Pálínu aðgengilega í nútímanum er að hún lauk við handrit að sjálfsævisögu árið 1924, árið sem hún varð sextug. Einnig liggja eftir hana dagbækur og fleiri heimildir sem í sumum tilfellum stangast á við fullyrðingar í sjálfsævisögunni.
Lögin heimiluðu ekki konum að ráða fjármálum heimilisins
Sigríður sagði að þátttaka kvenna í verslun og viðskiptum hefði víða verið rannsökuð og söguskýringum um að þær hefðu horfið úr þeim bransa á fyrri hluta 19. aldar verið hafnað. Staða Pálínu sem athafnakonu hefði þó verið sérstök í ljósi þess að þegar hún stofnaði verslun EJ Waage með manni sínum árið 1907 hafi konur ekki haft heimildir til að fara með fjármál hjóna. Vegna þessa vanti konur inn í hagtölur þess tíma. Af sömu orsök hafi Pálína aldrei verið skráður eigandi fyrirtækja sinna. Í dagbókum sínum skrifar Pálína þó opinskátt um fjármál og lýsir hvernig hún tekur stjórn á málum fjölskyldunnar þegar þarf.
Sigríður segir Pálínu lýsa því að hún hafi leiðst út í viðskiptin af tilviljun en ekki úthugsaðri stefnu. Að sama skapi geri hún sér grein fyrir að umhverfið sem hún ólst upp í hafi skapað henni ákveðin tækifæri. Þannig átti hún forfeður sem lærðu erlendis og urðu frumkvöðlar í íslenskri byggingarlist. Þannig hafi Pálína búið yfir menningarlegu og félagslegu auðmagni.
Hafði þor til að heimta meira
Sigríður sagði að Pálína hefði líka alla tíð haft þor til að ögra karlaveldinu í kringum sig. Sem unglingur hefði hún verið send úr Mjóafirði til að sækja hlut fjölskyldunnar í jörð á Héraði sem verið var að selja. Pálína hafði heyrt að hluturinn væri ódýr og heimtaði því helmingi hærri greiðslu en gert hafði verið ráð fyrir. Kaupandinn var æfur og frænka hennar, sem bjó skammt frá, einnig. Daginn eftir kom þó kaupandinn við annan mann og greiddi uppsett verð Pálínu fyrir landið.
„Þetta hefði auðveldlega getað verið unglingsstúlka að sækja greiðslu fyrir jarðarpart. Úr þessu býr Pálína hins vegar til frásögn þar sem hún ögrar karlaveldinu en sýnir sig um leið sem athafnakonu,“ sagði Sigríður.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.