Páll og Heimir taka við Fjarðabyggð
Samkvæmt heimildum Austurgluggans verða Heimir Þorsteinsson og Páll Guðlaugsson kynntir sem nýir þjálfarar Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar í dag. Nýr þjálfari og samningar við leikmenn eru efni blaðamannafundar sem félagið hefur boðað til síðdegis.
Nafn Heimis hefur verið það sem oftast hefur verið nefnt til sögunnar í umræðum um þjálfaramál Fjarðabyggðar í sumar. Hann tók við liðinu þegar þrír leikir voru eftir af seinasta tímabili og undir hans stjórn bjargaði það sér endanlega frá falli með 2-1 sigri á Selfossi á heimavelli. Heimir stýrði liðinu upp úr 3. deild á sínum tíma og eitt ár í 2. deild áður en Þorvaldur Örlygsson tók við.
Páll Guðlaugsson er reyndur þjálfari sem tók við Leikni Fáskrúðsfirði fyrir seinasta sumar. Hann gat sér góðs orðs í Færeyjum þar sem hann fékk silfurmerki íþróttasambands Færeyja fyrir starf sitt fyrir knattspyrnusambandið en hann þjálfi færeyska landsliðið um tíma. Hann þjálfaði Keflavík og Leiftur í úrvalsdeild.
Austurglugginn hefur ekki upplýsingar um verkaskiptingu þeirra né þjálfaramál Leiknis.