
Prentlistinni gerð skil í Skaftfelli
Síðustu þrjár vikur hefur hópur alþjóðlegra listamanna tekið þátt í þematengdri vinnustofu, „Printing Matter“, á vegum menningarmiðstöðvarinnar Skaftfells á Seyðisfirði, þar sem prentun og bókverkagerð eru rannsökuð bæði verklega og hugmyndafræðilega.Leiðbeinandi er danska listakonan og grafíski hönnuðurinn Åse Eg Jörgensen og hefur hópurinn m.a. verið með vinnuaðstöðu á Tækniminjasafni Austurlands Myndlistarkonan Litten Nyström hefur verið þeim innan handar.
Lokamarkmið vinnustofunnar var að hver listamaður gerði bókverk, í takmörkuðu upplagi, og voru til þess nýttar pressur sem Tækniminjasafnið hefur að geyma bæði til að gera há-, lág- og steinþrykk. Óhætt er að segja að á undanförnum þremur vikum hafi ríkt mikil stemmning og sköpunargleði á safninu.
Eftir margskonar tilraunir og prófanir þátttakenda námskeiðsins gefst gestum og gangandi tækifæri til að skoða afraksturinn á sýningu sem ber yfirskriftina Ákafi, í Tækniminjasafninu í dag frá klukkan fjögur til sex.
Börn eru sérstaklega velkomin og fá þau að spreyta sig við prentun í barnvænni aðstöðu.