Prjónahópurinn Karitas prjónar fyrir gott málefni í Vopnafjarðarkirkju
Prjónahópurinn Karitas hittist vikulega á þriðjudögum í safnaðarheimili Vopnafjarðarkirkju og prjónar fyrir gott málefni.
Þuríður Árnadóttir, sóknarprestur í Vopnafjarðarkirkju, segir markmiðið vera að búa til vettvang þar sem fólk getur hist, spjallað og prjónað fyrir gott málefni. Hópurinn var stofnaður í janúar og hefur hist þrisvar sinnum. Það hafa verið um 10 konur í hópnum á fjölbreyttu aldursbili. Í hópnum eru vinnandi konur, konur á eftirlaunum og konur á örorku. Þuríður segir enga karla í hópnum en að allir séu velkomnir.
„Núna erum við að prjóna fyrir Skjólið sem er dagheimili fyrir heimilislausar konur í Reykjavík sem kirkjan rekur,” segir Þuríður. „Við erum mest að prjóna húfur, vettlinga og trefla fyrir Skjólið en svo færum við okkur í að prjóna fyrir fleiri góð málefni”.