![](/images/stories/news/2016/starfa_vefjagigt_0003_web.jpg)
Ræða við Austfirðinga um vefjagigt: Eins og öll skynjun sé mögnuð upp
Tríó frá Þraut – miðstöð vefjagigtar, er statt á Austurlandi í dag og á morgun með fræðslu um sjúkdóminn fyrir sjúklinga, aðstandendur og heilbrigðisstarfsfólk. Framkvæmdastjóri Þrautar segir þekkingu á sjúkdóminum hafa aukist verulega síðustu ár.
„Þekking var slök um allan heim en hefur aukist síðustu 20 ár og sérstaklega síðustu fimm,“ segir Sigrún Baldursdóttir, sjúkraþjálfari og lýðheilsufræðingur sem stýrir Þraut.
Hún er eystra á vegum Starfsendurhæfingar Austurlands (StarfA) ásamt Eggerti Birgissyni sálfræðingi og Arnóri Víkingssyni gigtarlækni. Í dag var námskeið fyrir heilbrigðisstarfsfólk en á morgun fyrir sjúklinga og aðstandendur.
Vefjagigt flokkast meðal gigtarsjúkdóma því birtingarmyndin er svipuð í formi verkja í vöðvum og stirðleika en er í raun truflun í heila og mænu þannig að öll skynjun brenglast og verður ýktari.
„Þetta er eins og að vera með magnara. Einstaklingur með vefjagigt skynjar ljós, hávaða og snertingu á ýktari hátt en aðrir. Þol fyrir öllu áreiti verður skertara.“
Um helgina er boðið upp á skimum og fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Sigrún segir markmiðið að finna sjúkdóminn á byrjunarstigi þannig að frekar sé hægt að bregðast við honum. „Ef þú skilur hvað þú átt að gera geturðu frekar gert eitthvað í því.“
Eygló Daníelsdóttir iðjuþjálfari var meðal þeirra sem sótti námskeiðið í dag. Hún segir mikilvægt að fá fræðslu sem þessa austur. „Það er erfitt fyrir þá sem eru með vefjagigt á okkar svæði að fara suður. Með námskeiðum sem þessu getur heilbrigðisstarfsfólk hér komið meira inn með betri fræðslu og betri hjálp. Við getum gert því gert meira hér eystra og gert skjólstæðingum okkar meira gagn en áður.“
Á morgun er námskeið fyrir þá sem eru með vefjagigt og Sigrún hvetur þá til að taka aðstandendur með sér.
„Við förum yfir hvað vefjagigt er, af hverju hún stafar, hver bæði andleg og líkamleg einkenni eru og kennum helstu meðferðarúrræði.
Það getur verið erfitt fyrir aðstandendur að skilja hvað er að gerast því fólkið lítur eðlilega út en er alltaf þreytt, líður illa og má ekki koma við það. Fyrir mörgum er þetta því hugsýki en þetta er brengluð úrvinnsla í kerfinu.“
Frá vinstri: Eygló, Linda Pehrson frá StarfA, Sigrún, Eggert og Arnór. Mynd: GG