Reyðfirðingur útbjó þorrasultu fyrir grænkera

Matreiðslumeistarinn Bjarki Gunnarsson frá Reyðarfirði er maðurinn að baki þorrasultu fyrir grænkera sem vakið hefur mikla lukku á þorrablótum, bæði í hans gamla heimabæ sem og á höfuðborgarsvæðinu.

„Ég fæ oft klikkaðar hugmyndir. Þessi kom í hádeginu þegar ég var að borða með félögum mínum, ég sagðist þeim ég ætlaði að búa til vegan þorrasultu.

Þeir horfðu fyrst illilega á mig og sögðu mér að grænkerafæði ætti ekki heima í þorramat. Staðreyndin er hins vegar sú að sá hluti þjóðarinnar sem velur grænkerafæði hefur stækkað. Fyrir hann er lítið annað á þorrablótunum en kartöflumús og rófustappa. „Mér finnst gaman að skapa og vildi gera eitthvað til að gleðja þessa einstaklinga og það tókst,“ segir Bjarki.

Tófú er uppistaðan í þorrasultunni og í henni eru nokkrar tegundir grænmetis. Stærsta áskorunin var hins vegar hlaupið sjálft til að líma saman tófúið. „Gelantín er yfirleitt unnið úr nautum og svínum. Það tók mig hátt í hálft ár að vinna gott veganhlaup,“ segir Bjarki.

Þá er hlaupið sýrt sem gefur sultunni rétta þorrabragðið. „Félagarnir höfðu ekki trú á þessu þegar ég bað þá um að smakka en eftir það breyttist viðmótið því sultan er mjög góð. Hún er framandi og fersk þótt hún sé pínu súr.“

Bjarki, sem ólst upp á Reyðarfirði og lærði þar kjötiðn hjá Austmati áður en hann hélt suður í frekara nám, segir viðbrögðin við sultunni hafa verið mjög góð. „Sultan hefur verið á nokkrum þorrablótum í bænum og síðan hef ég fengið pantanir frá einstaklingum. Fólk hefur tekið mjög vel í þetta.“

Og hann sendi smakk austur á þorrablót Reyðfirðinga sem haldið var fyrir tveimur vikum. „Það kláraðist sem fór þangað og fengu færri en vildu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar