Reynsla til að byggja á
Apostol Apostolov, þjálfari kvennaliðs Þróttar Neskaupstað í blaki, segist ánægður með frammistöðu liðsins í úrslitum bikarkeppninnar um seinustu helgi þótt liðið hafi tapað gegn HK.
HK tryggði sér bikarmeistaratitilinn með 3-1 sigri á Þrótti. Kópavogsliðið vann fyrstu tvær hrinurnar nokkuð auðveldlega en þurfti að hafa fyrir sigrinum í þeirri fjórðu. Þróttur hampaði bikarnum í fyrra en missti í sumar þrjá lykilmenn, þarf af einn til HK. Því varð að byggja upp á nýtt og er Apostolov ánægður með hvernig til hefur tekist.„Stelpurnar voru stressaðar í byrjun en löguðust við að brjóta ísinn þegar þær unnu þriðju hrinuna. Það var erfitt fyrir ungu stelpurnar að spila gegn reyndu liði HK en þær gáfust aldrei upp,“ sagði Apostlov í samtali við Austurgluggann eftir leikinn. „Í úrslitaleikjum eru einstaklingsmistök dýrkeyptari en ella. HK refsaði okkur fyrir þau mistök sem við gerðum en við lærðum mjög mikið í dag.
Stelpurnar í liðinu hafa vaxið verulega í vetur. Íþróttamenn eru ekki eins og vatnsmelónur sem þú setur niður í jörðu og tekur upp fullþroska sex mánuðum síðar. Fyrir íþróttamanninn kostar árangurinn í hans grein æfingu eftir æfingu.“
Það má túlka það sem ákveðna viðurkenningu á árangri liðsins að Apostolov hefur verið ráðinn þjálfari A-landsliðs kvenna. Hann hefur valið tuttugu manna úrtökuhóp fyrir Smáþjóðaleikana á Kýpur í byrjun júní. Af hópnum eru fjórar stelpur úr Þrótti.
„Það er nóg að gera. Ég hef valið hópinn en við eigum eftir að fá staðfest hverjar þeirra gefa kost á sér fyrir leikana.“
Höttur kvaddi 1. deild karla í körfuknattleik með 55-97 ósigri gegn KFÍ. Liðið varð í næst neðsta sæti með sex stig.
Gettu betur lið ME féll úr leik gegn MR í fjórðungsúrslitum keppninnar en keppnin fór 15-36. Staðan eftir hraðaspurningar var 14-19.