Ræðir sonarmissinn
Þráinn Lárusson, skólastjóri Hússtjórnarskólans á Hallormsstað ræðir sonarmissinn sem hann varð fyrir í júní í nýjasta tölublaði Mannlífs. Lárus Stefán Þráinsson, framdi sjálfsmorð, en hann var fórnarlamb margra ára hrottalegs eineltis.
„Ég tók þá ákvörðun að þetta skyldi aldrei verða feimnismál og ég ætla að halda áfram að tala. Ég ætla ekki að fara með veggjum, það er ekki reiði og skömm í mínu hjarta,“ segir Þráinn í viðtalinu. Lárus Stefán bjó lengst af í Hafnarfirði og gekk í grunnskóla þar og varð fyrir hrottalegu einelti. Lárus var lesblindur og Þráinn gagnrýnir skólakerfið harkalega fyrir vanhæfni þess til að hjálpa þeim sem ekki falla að bókalestri. Þráinn lýsir því sem mannvonsku hvernig kerfið brjóti niður lesblind börn.Þráinn er formaður fræðslunefndar Fljótsdalshéraðs og situr í bæjarstjórn fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. „Lárus þroskaði mig, í rauninni, miklu meira en ég hefði viljað. Eins kaldranalegt og það kann að hljóma að þá er sú staða sem ég er í dag hans vandamálum að þakka. Ég vissi alla tíð að hans barátta hefði hrundið öllu af stað. Hún var ástæðan fyrir því að ég fór að vinna að skólamálum, hún var ástæðan fyrir því að ég taldi mig þurfa að miðla reynslunni sem hann gaf mér, hún var ástæða þess að ég fór í Kennaraháskólann, hún var ástæðan fyrir því að þegar ekkert gekk að breyta kerfinu þá fór ég í framboð, hún var ástæðan fyrir því að ég settist í bæjarstjórn, hún var ástæða þess að ég varð formaður fræðslumála, hún fékk mig til að berjast gegn samræmdu prófunum, hún var ástæða þess að ég var fenginn til að stýra skólamálum á Landsfundi Sjálfstæðismanna, hún var ástæða þess að ég var skipaður í stjórn skóla og fræðslumála flokksins.“
Þráinn og móðir Lárusar stofnuðu sjóð í minningu hans sem ætluð er til að hjálpa krökkum sem eiga erfitt uppdráttar félagslega. „Okkur dreymir um að á komandi árum megi rísa heimili eða vin fyrir krakka sem eru félagslega utanveltu án þess að þeir séu stimplaðir til vandræða.“
Reikningsnúmer minningarsjóðsins er 305-13-303030.