Risaframkvæmd bæjarins án útboðs

Í Austurglugganum í dag er fjallað um viðbyggingu Grunnskólans á Egilsstöðum. Sagt er frá því að áætlaður heildarkostnaður framkvæmdarinnar er eitt þúsund og sex hundruð milljónir.

Framkvæmdir er þegar hafnar. Ekkert útboð hefur farið fram vegna hönnunar eða framkvæmda við bygginguna, en Fasteignafélag í eigu bæjarins er sagt vera framkvæmdaraðili verksins. Framkvæmdir á vegum sveitarfélaga sem fara yfir 390 milljónir er skylt að bjóða út á Evrópska Efnahagssvæðinu.

Sigurður B. Halldórsson, lögfræðingur Samtaka Iðnarins segir í samtali við Austurgluggann í dag að hann telji að framkvæmdin sé útboðsskyld á Evrópska Efnahagssvæðinu. “Mér sýnist á öllu að verkið sé útboðsskylt,” segir hann.

Fram kemur að áætlaður kostnaður við bygginguna sé 350 þúsund krónur á fermetrum. Verkfræðingur staðfestir að kostnaðurinn sé í efri mörkum. Jafnframt er sagt frá því að fermetraverð við umdeilt hús Orkuveitunnar í Reykjavík var 220 þúsund krónur á fermeterinn.

Soffía Lárusdóttir, forseti bæjarstjórnar, segir að verkið sé ekki útboðsskylt. Hún fullyrðir framkvæmdin sé 30% ódýrari með því að fara þá leið sem Fljótsdalshérað fer við framkvæmdina. Hún segir verklag bæjarins hafið yfir allan vafa.

Eftir því sem Austurglugginn kemst næst hafði Fljótsdalshérað ætlað Fasteign ehf. að byggja og reka nýja grunnskólabyggingu á Egilsstöðum. Þegar Fasteign ehf. tókst ekki að fjármagna framkvæmdirnar, stofnaði sveitarfélagið Fasteignafélag um framkvæmdirnar sem þegar voru hafnar. Austurglugginn hefur ekki fengið upplýsingar um samninga milli Fasteignar ehf. og bæjarins.

Bergur Hauksson framkvæmdastjóri Fasteignar ehf. segir að félagið þjónusti Fasteignafélag Fljótsdalshérað. “Hugmyndin er að Fasteign ehf. eignist síðar grunnskólann.” segir Bergur í samtali við Austurgluggann í dag.

skoli_egs.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar