Róa kajak frá Grænlandi til Skotlands

Tveir enskir menn eru nú staddir á Austurlandi á leið sinni frá Grænlandi til Skotlands á kajak. Þeir Olly Hicks og George Bullard vilja með þessu ferðalagi sýna fram á að grænlenskur frumbyggi, sem kom að landi í Skotlandi á 17. öld hafi getað róið þangað alla leið á kajak.


Þeir félagar eru tveir saman á kajknum en þeim fylgir tökulið á landi sem er að gera heimildarmynd um ferðalagið. „Hugmyndin var að reyna að sanna að inúítar hafi getað róið til Skotlands á 17. öld. Þetta er ákveðin ráðgáta því að til eru sagnir um inúíta sem gekk í land á Skotlandi og engin veit hvaðan kom. Ég hélt að hann hefði mögulega geta róið þangað, en ég held það eiginlega ekki lengur,“ segir Olly Hicks í samtali við Austurfrétt og kímir.

Þeir félagarnir lögðu af stað með ferju frá Ísafirði í byrjun júlí. Hún flutti þá til Grænlands þaðan sem þeir réru aftur að Vestfjörðum og komu að landi á Hornströndum. Síðan hafa þeir róið með landi hingað austur og voru á Borgarfirði eystra í nótt. Þeir ætla að leggja upp frá Eskifirði til Færeyja á næstu dögum þegar veðrið verður hagstætt.

Á leið sinni með ströndinni koma þeir að landi á nóttunni og sofa í tjaldi. Það vildi svo til að þeir tjölduðu einmitt á Skaga aðeins örfáum dögum áður en ísbjörn fannst þar. „Við vorum með byssu í ferjunni en ákváðum svo að taka hana ekki með okkur í róðurinn af því að það var ekki mikill ís. Það er skrítið til þess að hugsa að ísbjörninn hafa svo verið á sama ferðalagi og við. Kannski við hefðum átt að hafa byssuna með okkur,“ segir Hicks.

„Það er bara einn róðrardagur eftir með ströndinni hér á Íslandi, við leggjum svo upp til Færeyja þegar okkur líst vel á veðrið. Það tekur okkur svona 4-5 daga að róa þangað,” segir Hicks en það er langlengsti leggurinn á opnu hafi í ferðinni. Þær nætur sem félagarnir eru á hafi úti sofa þeir í bátnum, setja út akkeri og flotholt og leggja sig báðir samtímis.

„Frá Færeyjum er svo styttra til Skotlands, það er bara svipaður leggur og Grænland – Hornstrandir og það er eyja á leiðinni sem við getum stoppað á og hvílt okkur meira að segja. Við verðum vonandi komnir til Skotlands í byrjun ágúst, og þá hvílum við okkur mjög vel,” segir Hicks og hlær. Nánar má lesa um ferðalagið hér.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar