Rokkjóga sérstaklega gott fyrir slammara
„Þetta verður sérstaklega gott fyrir rokkarana sem verða búnir að sofa í tjaldi og jafnvel slamma mikið, þá er ekkert betra en að teygja á stífum hálsi og baki,” segir Hrönn Grímsdóttir, jógakennari í Neskaupstað, en hún verður með rokk- og bjórjógatíma um Eistnaflugshelgina.
Jógatímarnir eru hluti af dagskrá Eistnaflugs. Hrönn kennir jóga og aðra líkamsrækt allt árið um kring í Neskaupstað. Hún segir að þó hún sé vissulega yfirleitt með hefðbundna jógatónlist í sínum tímum sé gaman að breyta til annað slagið.
„Það er auðveldlega hægt að nota rokk í jóga, það þarf bara að velja rétt. Við verðum með rokk-ballöður, hægan en þungan takt. Með því að nota flæðið í jóganu með rokktónlistinni minnir það svolítið á dans.”
Þá verður einnig boðið upp á bjórjóga. „Við vorum með bjórjóga í fyrra. Þangað kom allskonar fólk, þar á meðal ófrísk kona og maðurinn hennar. Þau komu með jógúrtdrykk, en ég sagði þeim að þau yrðu að vera með eitthvað í hendinni,” segir Hrönn og hlær, en á heimasíðu Eistnaflugs segir; „Jógakennarinn mun leiðbeina þér og þegar þú tekur sopa af bjórnum þínum mun hann bragðast betur en nokkru sinni.”
Hrönn segist vona að veðrið verði þannig um aðra helgi að hægt verði að vera með jógatímana utandyra. Hún segir tímana fyrir alla, bæði vana og þá sem aldrei hafa prófað jóga. „Við verðum ekki með skráningu, bara að fylgjast með hvar tíminn verður og mæta,” en hér má nálgast þær upplýsingar.