Rótgróin austfirsk menningarhátíð

Menningarveislan austfirska „Dagar myrkurs“ hefst á miðvikudaginn og stendur fram á sunnudag. til Alls kyns menning verður í öndvegi að venju og allir Austfirðingar munu geta fundið eitthvað við sitt hæfi á þessari rótgrónu austfirsku menningarhátíð.



Dagar myrkurs voru haldnir í fyrsta sinn í nóvember árið 2000 af Markaðsstofu Austurlands sem þá var og hét en Austurbrú, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar á Austurlandi hafa tekið höndum saman á síðustu árum til að lýsa upp fyrstu daga vetrar með þessum hætti.

Þetta er sannkölluð byggðahátíð Austurlands þar sem gervallur fjórðungurinn leggst á eitt til að gera íbúum og gestum þeirra glaða daga í svartasta skammdeginu. Í fimm daga rekur hver viðburðurinn annan og ættu háir sem lágir að finna eitthvað við sitt hæfi í dagskránni. Listafólk leggur lóð sín á vogarskálarnar að venju; tónlist, leiklist og myndlist verða áberandi í dagskránni að venju, bílabíó, myrkrarganga, bæjargöngur og fleira og fleira en dagskránna má skoða á vefnum east.is og á heimasíðum sveitarfélaganna.


Vitnisburður um kraftmikinn hjartslátt samfélagsins

Jón Knútur Ásmundsson, verkefnastjóri kynningarmála hjá Austurbrú, segir það skipta miklu máli að halda úti menningarhátíðum.

„Framboð á menningarviðburðum á Austurlandi hefur verið með nokkrum ólíkindum síðustu misserin sem er vitnisburður um kraftmikinn hjartslátt samfélagsins. Það eru viðburðir um allan fjórðung, mismargir auðvitað og flestir miðsvæðis eins og við er að búast þar sem fjöldinn er mestur. Vil þó minnast á Vopnafjörð sem kemur sterkur inn með stórskemmtun með mesta grínasta landsins, honum Ladda, og þjóðlegum tónleikum með Hundi í óskilum sem allir fíla í botn.“

Jón Knútur segir Daga myrkurs vekja athygli út fyrir fjórðunginn. „Við fáum alltaf einhverjar fyrispurnir utan fjórðungsins, ég er til dæmis nýbúinn að vera segja frönskum ferðamanni frá hátíðinni í ár. Hann hafði heyrt um myrkragönguna á Seyðisfirði og vildi vita meira.“

Á Dögum myrkurs er jafnframt góður tími til að heimsækja söfn og sýningar en tvær sýningar verða opnaðar á Dögum myrkurs í ár. Dagskrána í heild sinni má nálgast hér.

Mynd: Ingunn Þráinsdóttir. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar