Rússneskur raftónlistarmaður á ferð um Austfirði

Rússneski raftónlistarmaðurinn Fjordwalker heldur þrenna tónleika á Austfjörðum í vikunni. Hinir fyrstu verða í Egilsbúð í kvöld.


Fjordwalker heitir réttu nafni Alex Polianin. Tónlist hans er draumkennd raftónlist og á tónleikum bætir hann myndverkum við hana.

Um tvö ár eru síðan hann hóf að koma fram undir þessu nafni og síðan hefur hann haldið yfir 200 tónleika í 17 löndum. Fyrsta platan hans, U Can More, kom út í desember 2015.

Í yfirstandandi tónleikaferð fer hann um sex lönd. Ferðin hófst í Lettlandi fyrir viku áður en hann hélt til Litháen og Þýskalands.

Hér á landi dvelur hann í tvær vikur og fer hringinn. Fjordwalker spilar í Egilsbúð í kvöld, Sláturhúsinu á Egilsstöðum annað kvöld og á Kaffi Lárunni á Seyðisfirði á fimmtudagskvöld. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00.

Alex virðist hafa miklar mætur á Íslandi en hann er með 66°Norður húfu á öllum myndum. Hann heldur síðan áfram til Póllands og Hvíta-Rússlands áður en hann lýkur ferðinni í heimaborg sinni Yekaterinburg í Rússlandi í byrjun nóvember.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar