![](/images/stories/news/folk/astridur_olafsdottir_sofnun_nov16.jpg)
Safnað fyrir unga konu fá Fáskrúðsfirði með sjálfofnæmi
Söfnun er hafin til styrktar ungri konu, Ástríði Ólafsdóttur (Ástu), ættaðri frá Fáskrúðsfirði sem glímir við afar sjaldgæft sjálfofnæmi.
Veikindin gerðu vart við sig í lok árs 2013 og var fyrst talið að um flogaveiki væri að ræða. Annað kom hins vegar í ljós eftir að Ásta leitaði til sérfræðinga í Bern í Sviss haustið 2015 þar sem hún ætlaði í doktorsnám.
Heilsa Ástu versnaði þó og versnaði, og hún gat lítið sem ekkert gert í náminu. Sérfræðingarnir fundu á örfáum mánuðum út að Ásta væri ekki flogaveik, heldur með mjög alvarlegan og sjaldgæfan sjúkdóm sem kallast „Autoimmune limbic encephalitis“ og er sjálfsofnæmissjúkdómur sem veldur bólgu í heila.
Nokkrar mismunandi týpur af þessum sjúkdómi eru þekktar og Ásta er með þá sem einna minnst er vitað um. Í stuttu máli sagt heldur ónæmiskerfið að heilinn sé vondur, ræðst á hann líkt og hann væri baktería til dæmis, og reynir að eyðileggja hann. Bólgan sem myndast vegna þessarar árásar, þrýstir á staði í heilanum sem sjá um að viðhalda eðlilegu minni, hæfni til að læra og skilja hluti ásamt mörgum öðrum hlutum. Taugaboðin sem fara úrskeiðis valda svokölluðum hluta-flogum, sem upphaflega voru greind sem kvíðaköst.
Síðan hefur Ásta verið í meðferð undir handleiðslu sérfræðinga í Bern og Óðinsvéum, þar sem hún býr hjá móður sinni, en útlitið er ekki gott því líkur á bata eru minni ef sjúkdómurinn greinist seint. Ásta, sem er 28 ára gömul, getur í dag ekki stundað nám, vinnu eða búið ein vegna veikindanna. Í Danmörku á hún hins vegar ekki rétt á neinum fjárhagslegum stuðningi..
Þess vegna hefur verið sett af stað söfnun til að reyna að létta líf hennar.
Þá hefur Ásta skrásett sögu sína á Facebook og er hún öllum opin á síðu hennar.
Reikningsnúmer söfnunarinnar er: Vaxtareikningur nr. 0167-15-380380 kt. 040288-2289