Samdi nýja lagið með tveimur Eurovision-förum
María Bóel Guðmundsdóttir úr Neskaupstað sendi nýverið frá sér nýtt lag „7 ár síðan“ sem er komið inn á spilunarlista útvarpsstöðvanna. Lagið samdi hún ásamt tveimur höfundum sem sigraði hafa Söngvakeppni sjónvarpsins.Meðhöfundar Maríu eru Þórunn Erna Clausen, annar höfunda lagsins „Aftur heim“ sem vann keppnina 2011 og Pálmi Ragnar Ásgeirsson sem átti lagið „Unbroken“ árið 2015 og síðan „Power“ árið 2023.
Hún kynntist þeim í tónlistarbúðum á vegum Félags tónskálda og textahöfunda (FTT) þar sem lagahöfundar voru paraðir saman við útsetjendur. „Að enda með tveimur Eurovision-förum í hljóðveri var draumur. Við sömdum lag upp úr viðlagi sem ég átti ofan í skúffu,“ segir María Bóel.
„Búðirnar voru haldnar yfir helgi og þetta lag varð til seinni daginn. Ég var yngst í búðunum sem voru uppfullar af reyndu tónlistarfólki úr ýmsum áttum. Með því urðu til samstarfsverkefni sem ekki hefðu endilega orðið til.“
Textinn er ástarsaga um par sem kynntist fyrir sjö árum, missti sjónar hvort á öðru fyrir fimm árum en náði saman aftur fyrir þremur árum. „Fyrsta línan í textanum er um að hver ást eigi sína einstöku ferð. Okkur Þórunni langaði að fjalla um að það er ekkert ein leið í ástinni, stundum skilja leiðir fólks og það nær aftur saman.“
Lagið er hið fyrsta sem hljómar af væntanlegri fjögurra laga plötu sem María Bóel áformar að senda frá sér á næstunni. „Ég er að leggja lokahönd á hana. Síðan á eftir að velja hentugan tíma til að gefa hana út.“
María Bóel sendi lagið frá sér á föstudaginn 13, síðastliðinn. Hún ákvað að bjóða þar meintum óhappadegi birginn. „Pabbi sagði að ég ætti að gefa lagið út þennan dag. Ef vel gengi þá afsannaði ég kenninguna um daginn, ef ekki þá gæti ég kennt deginum um.“
María Bóel hefur sent eitt lag frá sér áður, lagið „Alein“ kom út árið 2019 og fékk ágætar viðtökur á streymisveitum. „Það hefur lifað ágætu og það bætast alltaf við spilanir.“ Að sama skapi er nýja lagið komið inn á spilunarlista bæði Bylgjunnar og Rásar 2. „Að komast inn á þá er góður árangur fyrir unga tónlistarkonu sem er að byrja að koma sér á framfæri.“