„Samtakamátturinn er mikill“

Gönguhópur undir merkjum „Enn gerum við gagn“ lauk ætlunarverki sínu fyrir rúmri viku þegar gengið var um Mjóafjörð. Hópurinn sem skipaður er göngugörpum úr félögum eldri borgara í Fjarðabyggð og á Djúpavogi hóf gönguna í maí og hefur nú gengið 350 kílómetra, frá Þvottárskriðum í suðri til Dalatanga í norðri.

„Þetta var í einu orði sagt stórkostlega flottur dagur hjá okkur en það voru um 60 manns sem gengu í yndislegu veðri,“ segir Hlíf Herbjörnsdóttir, formaður Jaspis, félags eldri borgara á Stöðvarfirði, en hópurinn hefur gengið um helgar í maí og júní.

„Hugmyndin kviknaði þannig að manninn minn, Björn Hafþór Guðmundsson, langaði svo að ganga Fjarðabyggðina alla og talaði um að gera það í sumar. Ég hló nú bara að honum í fyrstu og þótti hugmyndin alveg fjarstæðukennd. Við fórum svo að hugsa þetta, hvort væri hægt að fá félagið okkar, Jaspis, á Stöðvarfirði með okkur í lið og láta jafnframt gott af okkur leiða,“ segir Hlíf. Þau bættu svo um betur og buðu öðrum félögum að taka þátt og úr varð að öll félög eldri borgara í Fjarðabyggð sem og félagið á Djúpavogi tók þátt í ævintýrinu.


Rúmlega ein milljón króna safnaðist
Í heildina safnaði hópurinn rúmlega einni milljón króna og rennur ágóðinn til Krabbameinsfélags Austfjarða. „Það er okkur mikils virði að styrkja félagið. Það er kostnaðarsamt fyrir fólk á landsbyggðinni að leita sér lækninga til Reykjavíkur, bæði er ferðakostnaður hár og ekki eru allir sem geta dvalið hjá ættingjum og þurfa að leita annarra leiða og borga fyrir gistingu. Við vildum því leggja okkar að mörkum fyrir þá sem virkilega þurfa á því að halda,“ segir Hlíf, en söfnunarkassar liggja enn frammi í öllum byggðarlögunum. Auk þess hefur verið leitað eftir styrkjum frá fyrirtækjum á svæðinu.


Upphafið af frekara samstarfi félaganna
Hlíf segir verkefnið hafa verið hið ánægjulegasta og sé aðeins upphafið að frekara samstarfi milli félaganna. „Þetta hefur gefið okkur öllum svo mikið. Við höfum kynnst nýju fólki og myndað með okkur vináttu. Samtakamátturinn er mikill og við erum strax farin að huga að einhverju öðru, þó svo ekki sé búið að ákveða hvað eða hvenær. Við vitum það eitt að við viljum láta gott af okkur leiða og erum svo sannarlega ekki hætt.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar