Sauðaostur - Sauðagull
Sauðamjólk var um aldir nýtt til manneldis hér á landi og unnið úr henni skyr, smjör og ostar. Hætt var að mjólka ær hér á í byrjun 20. aldarinnar, enda þá kominn markaður fyrir lambakjöt og hagstæðara að láta lömbin ganga undir ánum. Þekkin á þessu mjög svo íslenska handverki hefur að mestu glatast, þótt ekki sé lengra um liðið. En nú hillir undir að hún verði endurvakin.Ann-Marie Schlutz kom í heimsókn til Íslands fyrir fjórum árum og er nú sest að á Héraði. Hún er með meistaragráðu í menningarlegri mannfræði frá Johannes-Gutenberg Universität í Mainz og hefur mikinn áhuga á sjálfbærni og matargerð. Undanfarin misseri hefur hún verið að þróa framleiðslu á sauðaosti, sem hún telur að geti orðið góð viðbót við hefðbundinn fjárbúskap hér á landi.
Í Austurglugganum, sem kemur út í þessari viku, er viðtal við Ann-Marie þar sem hún segir frá ostagerðinni og áhuga sínum á matargerð og sjálfbærni í landbúnaði. Hún hefur stofnað fyrirtæki utan um verkefni sitt, sem heitir því skemmtilega nafni Sauðagull, en það kölluðu bændur myntina sem þeir fengu fyrir sauðfé sem flutt var til Bretlands á sínum tíma.