![](/images/stories/news/2016/jon_krsitjansson_heradsmannasogur.jpg)
„Segjum sögunar eins og við heyrðum þær“
Jón Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður frá Egilsstöðum og Ragnar Ingi Aðalsteinsson frá Vaðbrekku á Jökuldal, hafa tekið saman bókina Héraðsmannasögur. Þar eru skráðar gamansögur af ýmsum skrautlegum karakterum á Héraði.
„Þetta er ekki sagnfræði með heimildavinna heldur okkar minning um hlutina,“ segir Jón. „Þarna koma fyrir ýmsir eftirminnilegir karakterar, skemmtilegir menn, glaðbeittir og orðheppnir sem settu svip á tilveruna þegar þeir voru upp á sitt besta.“
Hann segir samstarf þeirra Ragnars Inga hafa gengið vel. „Við þekktum töluvert marga af þessum mönnum persónulega. Ragnar Ingi skrifaði sínar endurminningar um Jökuldælinga og mikið til er bókin persónulegar endurminningar. Við skrifum sögurnar eins og við heyrðum þær og það getur verið að aðrir kunni fleiri útgáfur af þeim.“
Jón segir undirbúning útgáfunnar hafa staðið í nokkurn tíma en Guðjón Ingi Eiríksson, bókaútgefandi frá Eskifirði sem rekur Bókaútgáfuna Hóla, leiddi þá saman og hvatti þá til dáða. „Maður vonar að einhverjir hafi gaman af að rifja upp þessa ágætu menn. Við skrifum af virðingu við fólkið. Þetta er ekki til að gera lítið úr því.“
Hann útilokar ekki að fleiri bækur fylgi í kjölfarið en sambærilegar úr Skagafirði og af Vestfjörðum hafa notið nokkurrar hylli.
„Það er ekkert ákveðið en þetta samstarf okkar var mjög ánægjulegt. Bókin er kannski frekar karllæg og við þurfum kannski að skoða fleiri sögur af konum í framhaldinu. Bókin er stíluð inn á eldri lesendur sem kannast við þessa menn og við fórum ekki á staðinn til að safna sögum. Ef við skrifum meira þyrfti að gera það og færa sögurnar nær nútímanum.“
Að éta hrátt
Á Jökuldal er mikið langræði að fremstu bæjum og getur vetrarfærðin orðið erfið. Brú er fremsti bærinn áður en beygt er af leið og haldið inn Hrafnkelsdal. Eitt sinn þraut olíu á Brú og allt var ófært. Olían var höfð til að kynda eldavélina, auk fleiri nota.
Stefán Halldórsson bóndi hafði samband við Vegagerðina á Reyðarfirði og grennslaðist um fyrirætlanir um mokstur og opnun vega. Vegagerðarmenn útilokuðu ekkert, en kváðust athuga málið.
Síðan leið nokkur tími og Stefán fór að gerast óþolinmóður sem vonlegt var, hringir aftur og les þeim pistilinn. Viðmælandi hans segir þá að hann sé bara grimmur í dag. Stefán svaraði að bragði: „Maður verður nú grimmur af því að éta lengi hrátt.“