Selfyssingar verða taugaveiklaðir í kvöld
Í kvöld klukkan 18:00 taka Fjarðabyggaðarmenn á móti Selfyssingum í 1. deild karla í knattspyrnu. Fjarðabyggðarliðið þarf á stigi að hald í botnbarráttunni, meðan Selfyssingar verða að vinna til að eiga möguleika á að komast í úrvalsdeildina.
Heimir Þorsteinsson þjálfari segir erfitt en alls ekki óviðráðanlegt verkefni fyrir höndum.
“Við ætlum náttúrulega að verjast, en ekki bara verjast. Við ætlum að leggja þetta upp svipað og í síðasta leik þegar við héldum markinu hreinu. Það er dagskipunin að halda markinu hreinu, þessir menn eru búnir að skora 50 mörk í sumar. Svo reynum við náttúrulega að setja á þá mark í upphlaupum.”
Heimir segist ekki alveg í rónni ennþá vegna stöðunnar í deildinni. “Meðan er möguleiki á falli þá er sú hugsun alltaf að tjaldabaki. Það er óþægilegt. Þetta er algerlega í okkar höndum. Ef við stöndum okkur vel þá föllum við ekki. Ef þetta væri ekki okkar höndum þá væri ég meira kvíðinn.”
Stöðumat Heimis fyrir leikinn í kvöld er að öll pressan sé á Selfyssingum. “Selfyssingar verða að vinna, þess vegna búumst við því að þeir verði ákafir og taugaveiklaðir í kvöld, það hentar okkur ágætlega. Sérstaklega meðan við erum það ekki sjálfir.” sagði Heimir Þorsteinsson þjálfar Fjarðabyggðar.