„Sennilega oft verið minn versti óvinur“

Erfiðleikar á æskuheimilinu urðu til þess að Heiða Ingimarsdóttir gat ekki tekið prófin eftir fyrsta vorið í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Henni var um sumarið komi í fóstur og þannig hófst flakk hennar um landið. Hún taldi sér trú um að hún gæti ekki lært en spyrnti sér upp eftir að hafa verið einstæð tveggja barna móðir, upp á félagsþjónustuna komin. Heiða lauk síðar meistaranámi í almannatengslum í Englandi og starfar í dags sem upplýsingafulltrúi Múlaþings.

Heiða ólst að mestu upp á Suðurnesjum en flutti í Egilsstaði árið sem hún fermdist. Hún segist aldrei áður hafa komið svona austarlega en hafa tekið breytingunni sem nýju upphafi eftir að hafa verið lögð í einelti í Keflavík.

Hún kveðst ekki hafa verið jafn íþróttasinnuð og flestir í bekknum en eignaðist fleiri vini þegar hún komst í stærri hóp í ME. „Þeim fannst fyndið hvað ég var samviskusöm að læra alltaf heima og hugsa um litlu bræður mína. Ég var mikið með þá þegar ég var ekki í skólanum. Ég fór með þá í leikskólann á morgnana, sótti þá seinni partinn, sá um kvöldmatinn og þvoði af þeim fötin. Vinkonur mínar kölluðu mig „litlu mömmuna“.“

Send í fóstur


Þegar komið var fram á vorönn fyrsta ársins í ME var staðan orðin mjög erfið á heimilinu og svo fór að hennar vegna náði Heiða ekki að taka prófin, heldur var send í vistun á meðferðarheimilinu Stuðlum.

„Það var enginn staður mig. Þarna voru krakkar í fíkniefnaafvötnun meðan ég hafði aldrei séð slík efni. Þá mátti bara halda börnum 14 daga í neyðarvistun. Það var fullnýtt því barnavernd vissi eiginlega ekkert hvað átti að gera við mig.“

Úr varð að Heiða fór í vist að Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð, þar sem hún segir að vel hafi verið hugsað um sig. Það hafi hins vegar aðeins verið millibilsástand meðan gengið var frá næsta skrefi sem varð fósturheimili í sveit á Snæfellsnesi. Hún segir sumarvistina ekki hafa verið góða því samningarnir við barnavernd voru það strangir að hún mátt ekki vinna. Því sat hún eftir þegar heimilisfólkið fór til starfa. Eins mátti hún aðeins hafa samband við tilgreinda vini og ættingja, sem hún þá stimplaði sem „úr hinu liðinu“ og vildi því ekki tala við.

Heiða segist hafa fengið stuðning frá sálfræðingi og félagsráðgjafa sem blöskraði hversu þröngar skorður henni voru settar. Þegar leið að hausti vandaðist málið, Heiða vildi fara í skóla en ekki mátti senda fósturbarnið á heimavist. Óvænt heimsókn frá ömmu hennar og móðursystur leysti úr því.

„Þær voru á listanum yfir þá einstaklinga sem ég mátti tala við, þannig ég vildi alls ekki tala við þær. Ég var heima á bænum þegar dóttir hjónanna kemur hlaupandi til mín og segir mér að þær séu komnar. Ég var undrandi, sagðist alls ekki vilja hitta þær, bjóst við skömmum. Þarna voru tveir unglingar að reyna að leysa málin og við ákváðum að hún segði þeim að ég hefði farið í bað.

En maður kemur ekki frá Reykjavík upp á Snæfellsnes og snýr við því einhver er í baði. Því biðu þær og ég þurfti að lokum að koma fram. Þetta var góð heimsókn en erfið. Í framhaldinu bauð móðursystir mín mér að vera hjá sér. Ég leit mikið upp til hennar og hún var mér góð.

Að vera i fóstri hjá vandalausum var skrýtin upplifun. Ég myndi samt ekki vilja vera án hennar í dag. Ég lít svo á að allt sem ég hef upplifað sé hluti af því sem ég er nú. Það hefur gefið mér skilning á fólki og lífinu á annan hátt,“ segir Heiða.

Rótlaus tími


Heiða innritaðist í Fjölbrautaskólann í Ármúla en entist stutt í náminu. „Ég endaði með -1 einingu. Fékk 2 fyrir félagsfræði en -3 fyrir mætingu. Sálfræðingurinn minn mætti með mér í skólann, það var betra að ég hengi þar þótt ég færi ekki endilega í tíma. Ég var greind með áfallastreituröskun, það var mér mikið áfall að missa sambandið við systkini mín.“

Hún hafi síðan verið í umróti, búið fyrir norðan, sunnan og austan. Það gekk á ýmsu, á einum staðnum björguðu afi hennar og mágur hans henni frá kærasta sem hafði beitt höfðu hana ofbeldi. Hún fékk nóg af að vinna „kvennastörf“, tók meiraprófið og fór að keyra flutningabíla á höfuðborgarsvæðinu. Hún réði sig síðan austur þar sem verið var að byggja álverið í þrif á vinnubúðunum. Hún eystra í nokkur ár, fyrst á Reyðarfirði, síðar Egilsstöðum.

Menntunin meira en skírteini


Heiða reyndi nokkrum sinnum að halda áfram í framhaldsskólanámi en aðstæður voru erfiðar. „Ég var einhleyp lengi vel, fyrst með eitt barn, svo tvö. Ég hafði varla efni á að borga matinn, hvað þá að vera í skóla og svigrúmið til að læra var ekki mikið.

Ég var farin að trúa að ég gæti ekki lært. Samt gekk mér vel í þeim námskeiðum sem ég sannarlega tók. Þá hugsaði ég að þetta væri því ég hefði áhuga á efninu. Ég átti erfitt með að skipuleggja námið og sigta út hvað skipti máli. Sjálfsálitið var þannig að ég braut mig niður fyrir það sem ég gerði illa frekar en horfa á það sem ég gerði vel.“

En Heiðu langaði í nám. „Ég var orðin einstæð með tvö börn á Egilsstöðum og upp á félagsþjónustuna komin. Pétur (Heimisson) læknir hafði alltaf verið mér innan handar, bæði sem læknir og stuðningur. Hann fór að tala fyrir því að ég fengi að fara í endurhæfingu, sem væri að fá að mennta mig. Það væri mín leið út úr kerfinu, sem þyrfti hvort sem er að borga fyrir mig. Við sóttum tvisvar um en var synjað.“

En þar með var ekki allt búið. Frænka Heiðu hvatti hana til að skrá sig í Keili og gaf henni ráð um hvernig hún gæti stundað námið sem best. En Heiða komst ekki strax inn. „Ég sótti um en beið lengi eftir svari. Að lokum hringdi ég og spjallaði lengi við konuna sem svaraði. Ég sagðist vita að ég hefði ekki nógu margar einingar í stærðfræði en vissi ég gæti lært hana og lofaði að leggja mig fram. Ég útskýrði að aðstæður hefðu haft áhrif á minn námsferli en nú langaði mig að gera þetta á mínum forsendum, fyrir mig og börnin mín. Hún þagði í smá stund áður en hún sagði: „Til hamingju, þú ert komin inn í Keili.“

Ég sendi þessari konu skilaboð eftir að ég kláraði námið í Englandi til að þakka henni fyrir að hafa tekið mig inn. Hún svaraði mér til baka að þær hefðu tvær unnið í innrituninni og haft þá vinnureglu að hvor gæti veðjað á einn nemenda á önn, sem ekki uppfyllti öll skilyrði. Ég var hennar veð þessa önn.“

Úr marmarahöll í blokk


Heiðu gekk vel í Keili og að því loknu reyndi hún fyrir sér í lögfræði sem ekki átti við hana. Hún tók aftur saman við fyrri barnsföður sinn. Sá fékk fljótlega starf í Sádi-Arabíu og eftir nokkra bið flutti hún á eftir honum, til Barein sem er nokkru opnara samfélag. Sambýlismaður hennar var í vinnubúðum í Sádi-Arabíu fimm daga vikunnar meðan Heiða bjó í „450 fermetra marmaravillu“ með heimilisþernu og mann sem þreif bílinn.

Sambandið gekk hins vegar ekki upp og Heiða flutti heim í fábrotnari vistarverur. „Ég leigði 65 fermetra íbúð og vissi ekki hvernig ég ætlaði að borga leiguna. Íbúðina fékk ég í janúar en búslóðina í maí. Ég fékk einhvers staðar 120 sm. breitt rúm sem ég svaf í með börnin. Það er til mynd af þeim að nota Stiga-sleða sem matarborð.“

Blómstraði í almannatengslanámi


Úti í Barein hafði Heiða kynnst núverandi manni sínum, Englendingum Andy Morgan, sem flutti fljótt á eftir henni til Íslands. Þau tóku þá vinnu sem bauðst til að hafa í sig og á. Heiða fór að veita eftirtekt auglýsingum um nám í almannatengslum og miðlun við Háskólann á Bifröst en var hikandi að fara í nám og taka lán, hafandi tvisvar flosnað upp úr háskólanámi. Andy hvatti hana áfram og lofaðist til að sjá um heimilið meðan hún menntaði sig.

Heiðu gekk vel á Bifröst og hugurinn stefndi til frekara náms. Úr varð að hún fékk inn í meistaranámi í fyrirtækjasamskiptum, markaðsfræði og almannatengslum í Leeds. Heiðu gekk vel í náminu og lýsir dvölinni í Englandi sem árinu sínu. Hún tók meðal annars þátt í bloggkeppni og varð í fjórða sæti af 74 á landsvísu, hæst erlendra nema. Hún skrifaði meðal annars um ævi sína.

Heiða ætlaði að reyna fyrir sér á enskum vinnumarkaði og var komin í starfsnám þegar Covid-faraldurinn skall á og forsendur fyrirheita, sem henni höfðu verið gefin, brustu. Þau fluttu til Íslands og voru í Reykjavík þegar starfið hjá Múlaþingi var auglýst. Hún sótti um það af rælni, án þess að segja Andy frá. Málið vandaðist þó þegar hún var boðin í viðtal. Andy hafði þá varla komið austur en hvatti Heiðu áfram, því það væri meira ævintýri að vera þar.

Heiða segist alltaf vilja hafa mikið fyrir stafni. Þess vegna er hún líka svæðisfulltrúi fyrir Norður- og Austurland fyrir almannatengslafyrirtækið KOM. Þá er hún formaður Austurlandsdeildar Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) sem stofnuð var vorið 2022.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar