Sér ekki hvernig rætist úr sumrinu nema maður haldi áfram

Staðarhaldarar að Karlsstöðum í Berufirði hafa sent frá sér tónleikadagskrá fyrir þetta sumar eins og þau síðustu. Þeir eru bjartsýnir enda hafa Íslendingar verið í meirihluta þeirra sem sótt hafa tónleika þar.

„Við erum enn í fullu fjöri. Við sjáum ekki hvernig rætist úr þessu sumri nema með því að halda áfram að reyna að laða til sín ferðalanga,“ segir Svavar Pétur Eysteinsson, einn aðstandenda Havarís á Karlsstöðum.

Havarí tilkynnti í sumar viðburðadagskrá sína í sumar. Þar verður opnað þann 13. júní með ljósmyndasýningu. Meðal þeirra sem verk eiga á sýningunni er Héraðsbúinn Kormákur Máni Hafsteinsson, eða KOX. Hann tók einmitt myndina á umslag á síðustu hljómplötu Svavars, eða Prins Póló, en sú ber heitið Þriðja kryddið.

„Við höfum sett upp listsýningar undanfarin sumur. Í ár ákváðum við að einbeita okkur að ljósmyndaforminu og bjóða nokkrum af þeim ljósmyndurum sem við höfum dálæti á að sýna,“ segir Svavar Pétur.

Fyrstu tónleikarnir verða 17. júní þegar Valdimar Guðmundsson og Örn Eldjárn stígaá stokk. Fernir tónleikar verða síðan í júlí með Hipsumhaps, Ásgeiri, FM Belfast og Góss.

Stærri hátíðum Austurlands hefur verið aflýst vegna samkomubanns. Staðarhaldarar á Karlsstöðum halda hins vegar ótrauðir áfram. Svavar Pétur bendir á að fjöldamörkin séu nú dregin við 200 manns og almennt hafi viðburðir í hlöðunni á Karlsstöðum ekki verið mikið fjölmennari en það.

Þá hafi Íslendingar ávallt verið stærsti markhópur tónleikanna. „Það er engin ástæða til að slaka á þegar Íslendingar verða meira á ferðinni. Þeir hafa verið yfir 90% þeirra sem sækja skemmtanir hjá okkur.“

Núverandi takmarkanir heimila þó ekki skemmtanahald lengur en til klukkan ellefu að kvöldi og því munu hlöðuböllin ekki standa fram eftir nóttu. „Við miðum allt okkar við það sem yfirvöld hafa gefið út. Ef reglurnar verða rýmkaðar þá fylgjum við því. Að tónleikarnir séu búnir klukkan ellefu þýðir að hægt er að taka börnin með þannig það verður kannski meiri fjölskyldubragur yfir þessu.“

Reksturinn í Havaríi hefur ekki farið varhluta af ferðamannaleysinu frekar en aðrir. Gistiaðstaðan hefur verði opin þar síðan um mánaðarmótin en kaffisalan verður opnuð þann 13. júní. „Við keyrum þetta hægt í gang og verðum kannski ekki opið með jafn langt fram eftir í sumar, en það verður hægt að koma hér við í kaffi og með því yfir daginn í sumar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar