Seyðfirðingar hvattir til að slökkva ljósin og mæta í afturgöngu
Götuljósin verða slökkt eftir kvöldmat á Seyðisfirði og bæjarbúar eru hvattir til að myrkva hús sín fyrir afturgöngu sem gengin verður um bæinn. Fjöldi viðburða er í boði á Dögum myrkurs um helgina.
„Það mættu hátt í 250 manns í gönguna í fyrra og ég á von á því sama í kvöld,“ segir Jónína Brá Árnadóttir, ferða- og menningarmálafulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaðar.
Gangan leggur af stað frá Tækniminjasafninu klukkan 20:00. Götuljósin verða slökkt og bæjarbúar eru hvattir til þess að myrkva heimili sín og vera ekki á ferðinni á bílum á meðan gengið er. Göngufólk er hvatt til þess að koma með luktir, blys eða kyndla með sér í gönguna en lugtum verður útdeilt við safnið. Einnig að skreyta sig með ljósaseríum eða klæðast einhverju skuggalegu.
Komið verður við í Bókabúðinni þar sem leikskólabörn eru með sýningu og endað við Bláu kirkjuna þar sem verður óvænt uppákoma. „Það er stemming að ganga um myrkvaðan staðinn með stóru fjöllin gnæfandi yfir,“ segir Jónína.
Í kvöld verður einnig árshátíð Djúpavogsskóla þar sem leikritið um Dýrin í Hálsaskógi verður sýnt á Hótel Framtíð og í Miklagarði á Vopnafirði verður spilakvöld.
Listsýningar á laugardegi
Fyrir þá sem vilja skoða sýningu leikskólabarnanna á Seyðisfirði nánar þá eru hún opin milli 12 og 16 á morgun. Í Skaftfelli Bistró verður fagnað útgáfu glæpasögunnar Valdamiklir menn eftir Jón Pálsson klukkan fjögur. Jón hefur áður sent frá sér ljóðabækur og skáldsögur en Valdamiklir menn er fyrsta glæpasagan hans.
Á laugardag og sunnudag verður opin sýningin Plastfljótið – listmenntun til sjálfbærni – þátttökulist í Snæfellsstofu á Skriðuklaustri. Þar verður sýndur afrakstur listasmiðja í þátttökulistsköpun sem haldnar hafa verið víðs vegar síðustu misseri bæði hér á Austurlandi og í Rovaniemi, Lapplandi. Um er að ræða sameiginlegt listaverk þar sem margir hafa lagt hönd á plóg og sýndar verða ljósmyndir af ferli verkefnisins.
Listrænn stjórnandi verkefnisins er listakonan Ólöf Björk Bragadóttir, kennslustjóri Listnámsbrautar ME. „Með verkefninu er leitast við að vekja fólk til umhugsunar um ofnotkun plastumbúða og um leið hvatning til aðgerða í þeim málum,“ segir hún.
Menningarmiðstöð Fljótsdalshérað stendur fyrir leiklistarhátíð fyrir fullorðna áhugaleikara í Sláturhúsinu á Egilsstöðum sem kallast Drekinn. Á laugardag eru námskeið en á sunnudag verða æfð og sýnd stuttverk klukkan þrjú. Sýningin er öllum opin.
Tónlist á laugardagskvöldi
Tónlistaráhugafólk getur valið úr ýmsu á laugardagkvöld. Í Sláturhúsinu á Egilsstöðum verður Jazzhátíð Egilsstaða á Austurlandi sem nú er haldin á nýjum tíma. Fram koma Austfirðingarnir Jón Hilmar, Halldóra Mail, Anya, Öystein Gjerde, Máni & The Roadkillers auk Elísabetar Ormslev. Hátíðin hefst klukkan 20:00.
Klukkutíma síðar í Valaskjálf kemur Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar fram en hún gaf nýverið út diskinn Austfirska staksteina. Seinni hluti dagskrárinnar er svo tileinkaður afmælisbarninu Friðjóni sem fagnaði 60 ára afmæli á þessu ári og leikur hljómsveitin eingöngu tónlist frá upphafsári rokksins 1956 sem er jafnframt fæðingarár Friðjóns.
Í Egilsbúð í Neskaupstað verða Myrkvaverk BRJÁN. Fram koma Orri, Vinni Vamos og Á gráu svæði. Á Stöðvarfirði verður síðan hjónaball með skemmtiatriðum undir borðhaldi og dansleik með Randúlfunum. Viðburðurinn er öllum opinn óháð hjúskaparstöðu.
Lok á sunnudegi
Dagskrá Daga myrkur lýkur á sunnudagskvöld. Í Kolfreyjustaðarkirkju í Fáskrúðsfirði verður rökkurstund í stjórn sóknarprestsins en einnig koma fram tónlistarfólk og sagnaþula.
Á Vopnafirði verður kvöldstund með Ladda. Hann kemur fram ásamt undirleikaranum Hirti Howser, fara yfir persónurnar og lögin, segja frá tilurð þeirra og segja sögurnar sem fæstir hafa heyrt frá honum sjálfum. Í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði verða síðan tónleikar með Todmobil.