Orkumálinn 2024

Seyðisfjörður 125 ára: Afmælishóf og kveðjuathöfn í senn

Hátíðahöld í tilefni af 125 ára kaupstaðarafmæli Seyðisfjarðar hefjast í dag. Covid-19 faraldurinn hefur haft áhrif á skipulagningu dagskrárinnar sem leggur áherslu á heimamenn. Mikill vilji var til að halda hátíðina enda eru breytingar framundan á högum sveitarfélagsins.

„Þetta verður lágstemmd og notaleg dagskrá á þann hátt að viðburðirnir eru allir þannig að ekki komast of margir að í einu,“ segir Jónína Brá Árnadóttir, formaður afmælisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Afmælisdagskráin hefst klukkan fimm þegar listsýningar opna á nokkrum stöðum í bænum. Hún er þó ekki lágstemmdari en svo að hún teygir sig yfir tíu daga. „Við lögðum upp með að hafa minni viðburði en yfir fleiri daga,“ segir Jónína.

Samkomubann flækt málin

Formleg setning hátíðarinnar verður á laugardag en meðal viðburða á afmælinu eru leiksýningar, tónleikar, hlaup, sund og formleg opnun bíósalarins í Herðubreið. „Dagskráin er miðuð að Seyðfirðingum og gestum þeirra. LungA var slegið af en fólk þaðan verður með okkur sem og Tækniminjasafnið sem við erum mjög ánægð með. Þá eru líka tónlistarmenn á ferð um landið sem við fáum að njóta góðs af.“

Covid-19 faraldurinn og samkomubann vegna hans hafa haft mikil áhrif á undirbúninginn. Upphaflega stóð til að halda upp á afmælið 6. júní en frá því var fallið.

„Það hefur verið snúið að skipuleggja og ákveða en við erum búin að vera í sambandi við og fá ráðleggingar frá almannavörnum á Austurlandi. Það hefur verið óvissa og þess vegna kemur dagskráin seint fram en við vildum ekki fara flatt á því ef eitthvað gengi ekki upp. En við tökum mið af gildandi takmörkunum og hugum vel að sóttvörnum og biðlum jafnramt til gesta að gera slíkt hið sama.“

Afmælis- og kveðjuhóf

Afmælishátíðin er líka sérstök fyrir þær sakir að í haust mun Seyðisfjarðarkaupstaður sameinast þremur öðrum sveitarfélögum á Austurlandi. „Þetta er um leið um kveðjuhóf. Það er táknrænt að halda upp á þetta nú og þess vegna vildi fólk halda í hátíðina þrátt fyrir aðstæður. Þetta er 125 ára afmæli kaupstaðar sem hefur gengið í gegnum ýmislegt. Að auki er ný útgáfa Húsasögu Seyðisfjarðar ákveðin tímamót.“

Það er því óvissa um hvað verður með framtíðarhátíðahöld á afmæli Seyðisfjarðar. „Þetta er góð spurning, við höfum rætt þetta. Nú eru ákveðin endalok en tíminn verður að leiða annað í ljós. Seyðfirðingar verða áfram Seyðfirðingar og Seyðisfjörður áfram Seyðisfjörður þótt þeir tilheyri nýrri stjórnsýslueiningu. Hver veit nema það verði haldið upp á 150 ára afmælið, ég mæti að minnsta kosti.“

En hvað sem framtíðin ber þá eru framundan tíu dagar af viðburðum á Seyðisfirði. Mesta óvissan nú ríkir um veðrið en spáð er rigningu fyrri part laugardags. Rætist hún að fullu verður dagskráin á laugardag færð inn í félagsheimilið Herðubreið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.