Síðasta sinn sem skáblysin dreifast um varnargarðana

Áramótabrennur með flugeldasýningum verða í flestum þéttbýliskjörnum á Austurlandi í dag. Víðast verða þær síðdegis frekar en í kvöld. Í einhverjum tilfellum þarf að færa til brennurnar vegna snjóalaga. Brennurnar hafa fallið niður síðustu tvö ár vegna Covid-faraldursins.

Það eru Borgfirðingar sem skera sig úr og ætla að hittast við norðurenda flugvallarins klukkan 20:30 í kvöld. Þar með verða þeir langsíðastir Austfirðinga með brennurnar.

Í Fjarðabyggð hefjast brennurnar allar klukkan 17:00. Í Neskaupstað verður hún utan við flugvöllinn, inni á sandi. Hálftíma fyrr verður þó flugeldasýning. Þar verður í síðasta sinn skotið upp „skáblysum“ af snjóflóðavarnargörðunum ofan við byggðina og hafa sett svip sinn á flugeldasýningarnar þar því hætt er að flytja þessa gerð flugelda til landsins.

Á Eskifirði stendur til að hafa brennu við malarsvæði á móts við þorpið. Endanleg staðsetning verður valin út frá snjóalögum. Á Reyðarfirði er brenna við Hrúteyri, á Fáskrúðsfirði á Sævarenda, á Stöðvarfirði á Melseyri ofan Birgisness og á Breiðdalsvík á malarsvæði sunnan við gámavöllinn.

Á Vopnafirði verður kveikt í brennu ofan við Búðaröxl klukkan 16:30. Flugeldasýning hefst þar hálftíma síðar.

Á Egilsstöðum verður áramótabrennan í Tjarnargarðinum klukkan 16:30. Leikfélag Menntaskólans á Egilsstöðum stýrir þar samgöng og von er á gestum ofan af fjöllunum. Flugeldasýning hefst hálftíma síðar. Sömu tímasetningar eru á brennu og flugeldasýning á Seyðisfirði sem verður á Langatanga.

Brennan á Djúpvogi hefst klukkan 17:00 á Hermannastekkum og þar verður einnig flugeldasýning.

Sveitarfélögin áminna fólk um að fara varlega í kringum flugelda og eld og hafa með sér hlíðarbúnað eins og hjálma og gleraugu. Annan klæðnað þurfi einnig að velja vandlega, svo sem flísefni á höndum.

Veðrið getur haft sín áhrif, bannað er að kveikja í brennu fari vindur yfir 10 m/s. Almennt virðist það eiga að sleppa til eystra í kvöld. Þá ætti snjókoma ekki að hafa áhrif á flugeldasýningarnar en von er á úrkomu um eða upp úr kvöldmat.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar