Sífellt vaxandi áhugi á norðurljósum

Norðurljóshús Íslands opnaði á Fáskrúðsfirði um miðan maí í elsta húsi bæjarins, en þar verða til sýnis glæsilegar norðurljósamyndir teknar af þeim Jóhönnu Kristínu Hauksdóttur og Jónínu G. Óskarsdóttur.



„Við vitum sjálfsagt flest hér á Fáskrúðsfirði og þó víðar væri leitað að Jóhanna samkennari minn og hjúkrunarfræðingurinn Jónína hafa lengi tekið myndir af norðurljósunum og mér fannst tími til kominn að koma þeim út í dagsljósið þannig að allir gætu notið þeirra. Ég kynnti hugmyndina fyrir þeim í október 2013 og sem betur fer voru þær til í þetta og við hófumst handa við að koma þessu á laggirnar,“ segir Viðar Jónsson, stjórnarformaður verkefnisins. Að því standa einnig Jónína sem er framkvæmdastjóri og áhugaljósmyndari, Jóhanna sem er listrænn stjórnandi og áhugaljósmyndari og Ingimar Guðmundsson meðstjórnandi.

„Við Jónína vinkona höfum alltaf haft áhuga á ljósmyndum, við erum æskuvinkonur og tókum mikið af myndum þegar við vorum unglingar, þó aðallega af hvor annarri. Við lágum oft sem krakkar og horfðum á norðurljósin og stjörnurnar og hrifumst af þeim, en óraði þá ekki fyrir því að við ættum eftir að taka myndir af þessum fyrirbærum.

Árið 2008 fórum við að prófa og ég man ennþá fyrsta kvöldið sem við tókum myndir í afskaplega fallegu veðri, en ég hugsa oft að ég hefði viljað vera með betri vél þá. Svo þróaðist þetta hjá okkur, út í það að nú erum við á vaktinni öll kvöld, allan veturinn þegar norðurljósaspáin er góð,“ segir Jóhanna.


Allar myndirnar teknar í Fáskrúðsfirði

Í Norðurljósahúsi Íslands eru til sýnis 26 stórar ljósmyndir af norðurljósum sem allar eru teknar í Fáskrúðsfirði. Ein þeirra er „Nasa-myndin“ svokallaða sem Jónína náði veturinn 2012.

„Þetta kvöld var stærsta sólgos sem verið hafði í langan tíma og Jónínu tókst að mynda það á hárréttu augnabliki og náði þessari gífurlega fallegu mynd. Hún setti hana svo í loftið og þá fóru hjólin að snúast, en hún hefur verið vinsæl um allan heim og meðal annars fékk Nasa, bandaríska geimferðastofnunin, leyfi til að nota hana,“ segir Jóhanna.


Húsið er stór hluti sýningarinnar

Norðurljósahúsið er staðsett í svokölluðu Wathnes-sjóhúsi sem er í eigu Loðnuvinnslunnar.

„Húsið er stór hluti sýningarinnar, en það er einstaklega fallegt og hentar vel. Þetta er elsta húsið á Fáskrúðsfirði, byggt 1882. Upphaflega var það sjóhús, þá salthús og eftir að Loðnuvinnslan gerði það upp var það notað sem umbúðageymsla,“ segir Viðar, en upplýsinaspjöld er að finna um húsið sem og leiðbeiningar um hvernig best sé að taka norðurljósamyndir og hinn vinsæla „Selfie Point“ þar sem hægt er að taka af sér sjálfsmynd undir stjörnubjörtum norðurljósaböðuðum himni.

Jóhanna segir fyrstu viðbrögð við sýningunni hafa mjög góð, þó svo að róðurinn verði líklega þungur til þess að byrja með.

„Norðurljós eru mjög merkileg því það eru ekki allir sem sjá þau, en ég held að áhuginn sé mjög vaxandi, en hingað streyma útlendingar sem hafa ekki aðeins áhuga á að horfa á þau heldur reyna að fanga þau á filmu líka,“ segir Jóhanna.

Norðurljósahús Íslands1

Norðurljósahús Íslands3

Norðurljósahús Íslands2

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar