Sigið og kæst heillin!
Í Fiskhöllinni í Fellabæ er handagangur í öskjunni sem aldrei fyrr, því þar eru tíu manns vakin og sofin yfir kæstri tindabykkju og skötu. Framleiða á um sjö tonn fyrir Þorláksmessu, en því hefur verið slegið fram að Íslendingar leggi sér um þrjátíu tonn af kæstum fiski til munns þennan eina dag ársins.
Steinar Guðmundsson, eigandi Fiskhallarinnar, segist vera búinn að framleiða um fimm tonn af kæstri tindabykkju og eitthvað af skötunni. Og enn sé ekki allt búið.
En hvort er vinsælla? Hann svarar því til að þó skatan sé alltaf vinsæl, sé hún í roðinu og heil, á meðan tindabykkjan sé í stykkjum og roðflett og þannig tilbúin í pottinn hjá kokkum í veitingahúsum og á heimilum landsins. Sumum líki það betur.
Þegar fiskurinn hefur verið handeraður er hann geymdur í þar til gerðum bökkum á hálfan mánuð eða þaðan af meira og þá settur í fiskikör og geymdur í nokkra daga til viðbótar meðan vatnið er að renna almennilega af honum. Eftir það er tindabykkjunni pakkað í fimm kílóa umbúðir og geymd í frystihúsinu á Seyðisfirði uns hún fer til kaupenda. Skatan er heilfryst eftir kæsingu. Steinar segist brattur með að framleiða fjórðung þess kæsta fisks sem dettur ofan í mannskapinn á Þorláksmessu; mest fari til Reykjavíkur og Akureyrar en einnig eitthvað til veitingahúsa og einstaklinga á Austurlandi.
Hann framleiðir líka jólasíld og reykir síld sömuleiðis til jólanna. ,,Nú, uppskriftin að marineringunni á síldinni er auðvitað leyndarmál manneskja, en fólki hefur líkað hún vel og þetta er allt saman herramanns matur," segir Steinar og snýr sér að kæsingunni á nýjan leik.