Sjósundsáhugi kviknar á ný á Vopnafirði

Fyrir þremur til fjórum árum síðan stunduðu einar fimmtán konur á Vopnafirði sjósund nokkuð reglubundið að sumarlagi. Kvarnastð hefur töluvert úr þeim hópi síðan en þær sem eftir eru hafa reynt að kveikja neistann á ný.

Kristrún Ósk Pálsdóttir, sem titlar sig rolluhvíslara í símaskránni, er ein þeirra sem reynir að endurvekja áhuga og fjölga þeim konum sem demba sér í sjóinn reglulega í Vopnafirði, en þar er enginn skortur á flottum stöðum til að stunda það sport.

Sjálf hefur Kristrún stundað sjósund um tæplega fjögurra ára skeið og í upphafi tók góður fjöldi kvenna á staðnum þátt í því með henni. „Ég dembi mér reglulega í sjóinn hvort sem veðrið eða hitastigið er gott eða slæmt,“ segir hún.

Aðspurð út í heilsubætandi áhrif sjósunds, sem margir hafa haft hátt um síðustu árin, viðurkennir Kristrún að hún sjálf hafi vissulega haft gott af en fyrst og fremst andlega en ekki líkamlega.

„Við öll erum mismunandi og það sem virkar fyrir mig virkar kannski ekki fyrir aðra. En fyrir mitt leyti get ég alveg sagt að sjósundið, og ég stunda það tiltölulega reglulega, hefur haft mjög góð andleg áhrif. Ég veit að margir tala um líkamlega góð áhrif og það kann vel að vera rétt fyrir suma en af minni hálfu líður mér miklu betur andlega en áður fyrr.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar